Sjálfstæðisflokkurinn svarar engu um framkvæmdir sem nú standa yfir á lóð Valhallar í Reykjavík. Byggingarfélag tengt flokknum annast framkvæmdirnar.
Húsið sem byggt verður á lóð Valhallar verður um 5.000 fermetrar og í því 48 íbúðir á fimm til sex hæðum. Þá verða skrifstofur einnig í húsinu. Fjölga á bílastæðum úr 88 í 125 og hjólastæðum úr engu í 115.
Það er Byggingafélag Gylfa og Gunnars hf (BYGG) sem annast framkvæmdirnar en félagið er vel tengt Sjálfstæðisflokknum og hefur meðal annaars styrkt flokkinn með háum upphæðum.
Mannlíf hefur ítrekar reynt að fá svör við spurningum um framkvæmdirnar sem nú standa yfir, frá framkvæmdarstjóra flokksins, Þórði Þórarinssyni, í gegnum síma, tölvupóstsendingum og með því að kíkja í Valhöll en án árangurs. Aðstoðarmenn hans hafa í þremur tilfellum sagst ætla að benda Þórði á að svara tölvupóstum Mannlífs en enn bólar ekkert á svörum.
Eftirfarandi spurningar voru sendar á Þórð:
1. Seldi Sjálfstæðisflokkurinn lóðina? Ef svo, hver var söluupphæðin? Ef ekki, er Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur í þessum framkvæmdum?
2. Ef það er flokkurinn sjálfur sem er í þessum framkvæmdum, hvers vegna var ákveðið að fara í þær?
3. Hver er áætlaður hagnaður af þessum framkvæmdum eða viðskiptum, miðað við áætlanir?
4. Hvað stendur til að nota áætlaðan hagnað af þessum viðskiptum í?
5. Stefnir Sjálfstæðisflokkurinn á frekari framkvæmdi eða uppbyggingu annars staðar?
Virði lóðarinnar
Miðað við fyrirliggjandi gögn hjá Fasteignamati Ríkisins má byggja á lóðinni 48 íbúðir sem eru að meðaltali 80,4 fermetrar á stærð og samkvæmt upplýsingum frá fasteignasölum sem Mannlíf hafði samband við má reikna með, miðað við kaup á lóðum undanfarin misseri að virði lóðarinnar sé að minnsta kosti 585 milljónir og 540 þúsund krónur, miðað við birta fermetra íbúða sem finna má hjá Þjóðskrá. Þar er talað um eina verslun sem verður 94,7 fermetrar á stærð og því metin á rúmar 6 milljónir. Ekki liggja fyrir upplýsingar í Þjóðskrá um fjöldi skrifstofurýma og stærð þeirra og því er virði lóðarinnar talsvert meira en upp er gefið hér að ofan þar sem skrifstofufermetrinn er dýrari en íbúðarfermetrinn.