Árni Árnason venti kvæði sínu í kross, seldi fyrirtæki sitt og lét gamlan draum rætast um að gefa út bók. Barnabókin Friðbergur forseti, varð að veruleika með dyggri aðstoð Helenu dóttur Árna og hefur bókin um forsetann slegið rækilega í gegn.
„Ég er búinn að vera í markaðsgeiranum í 20 ár og seldi fyrr á árinu auglýsingastofuna sem ég hef átt í átta ár, Árnasynir,“ segir Árni eldhress þegar blaðamaður hringir. „Ég fór síðan að eltast við gamlan draum um að skrifa. Ég hef unnið mikið með texta í gegnum árin en löngunin var að taka skriftirnar á nýjan stað.“
Barnabók varð fyrir valinu sem fyrsta bók, þar sem Árna langaði að skrifa bók fyrir og með Helenu, níu ára dóttur sinni, en bækur og lestur eru sameiginlegt áhugamál feðginanna.
„Við lesum mikið saman og ég hef mikla trú á lestri og bókum sem uppeldistæki til að þroska hugann og gagnrýna hugsun. Mig langaði að skrifa barnabók á meðan Helena væri enn á þeim aldri að njóta. Mér finnst líka aldrei nóg af bókum fyrir börn og sérstaklega um hluti sem skipta máli.“
En finnst honum að barnabækur eigi að hafa boðskap?
„Það má bara vera gaman að sjálfsögðu. En mér finnst gott þegar hægt er að fá krakka til að hugsa um dýpri hluti, af því þeir eru oft að pæla í einhverju. Ég frábið mér samt allar predikanir í bókinni.“
Friðbergur forseti fjallar um krakka sem rísa upp þegar réttlætiskennd þeirra er misboðið. „Og gegn forsetanum Friðbergi, sem hefur tekið sér hálfgert einræðisvald og þau finna í hjarta sínu að hlutir eru að gerast sem ættu ekki að eiga sér stað. Síðan fara krakkar að hverfa og fleiri hlutir gerast.“
Hugmyndin varð til í heita pottinum
Feðginin fara í sund daglega og í spjalli í pottinum kom upp hugmyndin að bókinni. „Helena lét mér í té sögupersónurnar og gaf þeim nöfn. Saman þróuðum við grunnþráðinn í sögunni og ég tók hann svo og vann áfram,“ segir Árni.
„Persónurnar eru í rauninni persónur sem hún vildi heyra sögur um. Eru ekki allar persónur byggðar á einhverjum; bæði úr mínu, þínu og okkar allra lífi? Þetta eru persónur sem hún þekkir og við þekkjum saman. Ég er viss um að ég er þarna einhvers staðar,“ svarar Árni aðspurður um hvort Helena hafi byggt persónurnar á einhverjum sem hún þekkir.
En hvað finnst feðginunum um okkar forseta, Guðna Th. og er hann búinn að fá eintak af bókinni? „Við höfum ekki náð að gera það en fáum vonandi tækifæri til þess. Okkur finnst hann náttúrlega bara frábær og hann er forseti sem við getum verið montin og stolt af,“ segir Árni. „Sagan gerist í náinni framtíð og það má segja að Friðbergur gæti tekið við af Guðna ef við pössum okkur ekki á hvert við erum að fara. Það eru nokkrir samtíma populistar sem má finna í Friðbergi.“
Bókin hefur farið vel af stað og fór í efsta sæti á sölulista barnabóka í útgáfuviku. „Bókin hefur fengið góðar viðtökur og það er gaman að sjá að bæði börn og fullorðnir taka bókinni vel. Bókin er fyrir aldurinn 8-12 ára og hún hentar vel fyrir börn og foreldra til að lesa saman. Það er margt í henni sem foreldrar geta líka haft gaman af,“ segir Árni. „Það er framhald á teikniborðinu alveg klárlega, sem kemur vonandi á næsta ári. Ég er einnig með fleiri hugmyndir.“
Árni hefur farið með bókina í skóla og lesið fyrir nemendur og segist tilbúinn til að vera með upplestur ef áhugi er fyrir því. „Það er ofsalega skemmtilegt og gaman að hitta væntanlega lesendur. Mjög gefandi.“