Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að skipa Magnús Geir Þórðarson í starf þjóðleikhússtjóra. Magnús lætur af störfum sem útvarpsstjóri og hefur störf hjá Þjóðleikhúsinu 1. janúar 2020. Hann verður skipaður til fimm ára.
Sjö sóttu um starfið; Ari Matthíasson, núverandi þjóðleikhússtjóri, Brynhildur Guðjónsdóttir, leikari og leikstjóri, Guðbjörg Gústafsdóttir, Kolbrún K. Halldórsdóttir, leikstjóri, Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, og Stefán Sturla Sigurjónsson, leikari og rithöfundur, auk Magnúsar.
Þjóðleikhúsráð veitti umsögn en ráðherra skipaði í kjölfarið hæfisnefnd sem mat fjóra hæfasta. Voru þeir boðaðir í viðtal.
„Ég geri ráð fyrir því að fyrstu mánuðirnir fari í það að móta áherslur, þó ég sé auðvitað með fullt af hugmyndum, þá verður það fyrsta verkefnið að setja mig betur inn í málin og hlusta á það góða fólk sem fyrir er í húsinu og svo í samstarfi við það móta spennandi verkefni og stefnu til framtíðar,“ sagði Magnús í samtali við mbl.is.