Myglu má finna undir gervigrasinu í Miðgarði, hinu nýja íþróttahúsi Garðbæinga sem kostaði bæjarfélagið fjóra milljarða í framkvæmd. „Hrikalegt að sjá þetta,“ sagði bæjarfulltrúinn Ingvar Arnarsson þegar flæddi inn í húsið í marsmánuði síðastliðinum en talið er að myglusveppurinn hafi Þannig borist inn í húsið.
Sérfræðingar hafa nú fundið út að sveppagró sé að finna í gúmmíundirlagi gervigrassins í Miðgarði. Samkvæmt fundargerð í bæjarráði er beðið frekari niðurstaðna um hversu stórt vandamálið er en líklegt er talið að fletta þurfi grasinu upp og skipta um undirlagið.
„Samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga verður jarðvegssveppnum haldið niðri með reglulegri sótthreinsun þangað til gúmmíundirlag verður fjarlægt. Fyrsta sótthreinsun fór fram laugardaginn 15. október. Regluleg sótthreinsun mun fara fram á þeim tíma sem ekki eru æfingar eða kennsla þar sem gervigrasið er og tryggt verður að öll ummerki sótthreinsunar verða horfin áður en notkun hefst á ný eftir hverja hreinsun,“ segir í fundargerðinni og er þar lögð áhersla á að heilsu gesta hússins hafi ekki verið ógnað.
Morgunblaðið greindi frá myglunni í Miðgarði en netverjar ráku augun í hversu fimlega fjölmiðilinn skautaði framhjá orðinu mygla í umfjölluninnni. Á Twitter veltir Elmar Torfason fyrir sér hvers vegna það hafi verið gert. „Ætli það hafi eitthvað með pólitík að gera að Morgunblaðið kýs að nefna það sveppagró sem vex í þessu glæsilega knattspyrnuhúsi í Garðabæ en ekki myglu, eins og þegar eitthvað sambærilegt kemur upp í skóla í Reykjavík? Annað hljómar sakleysislegra en hitt,“ segir Elmar.