Pétur Már Sigurðsson, 19 ára nemandi í Verzlunarskóla Íslands, gaf nýlega út kverið Fundur er settur, ásamt Birni Jóni Bragasyni, kennara sínum í skólanum. Kverið fjallar um félagsstörf, fundarsköp og ræðumennsku, sem er sameiginlegt áhugamál nemandans og kennarans.
„Björn Jón átti hugmyndina að kverinu og bar hana undir mig þegar ég var hjá honum í lögfræðitíma,“ segir Pétur Már aðspurður um kverið. „Ástæðan var sú að hann vissi að ég hafði mikla innsýn í heim félagsstarfa ungmenna í dag og vildi fá það staðfest að það væri þörf á þessu. Þá var það ekkert inni í myndinni að ég myndi vinna hana með honum. Í kjölfarið fórum við þó að ræða þetta meira og meira og eftir nokkrar vikur bauð Björn mér að vera meðhöfundur. Ég er mjög þakklátur fyrir það tækifæri.“
Pétur Már segist ekki vita um önnur dæmi þess að nemandi og kennari gefi út rit saman, að minnsta kosti ekki hér á landi.
Með ofboðslega vítt áhugasvið
Pétur Már er 19 ára og býr á Selfossi. Að eigin sögn er hann með ofboðslega vítt áhugasvið, mikinn áhuga á félagsstarfi og list, sérstaklega málaralist. „Ég hef líka alltaf verið hrifinn af tækni og hef nýtt frítímann minn í að læra forritun síðustu átta ár. Í dag forrita ég hjá fyrirtækinu SalesCloud sem þróar sveigjanlegt sölukerfi bæði til þess að selja vörur á Netinu og í verslun.“
Hann fékk áhuga á félagsstörfum strax í áttunda bekk, þegar honum bauðst að vera í félagsmiðstöðvarráði Zelsíuz á Selfossi. „Út frá því bauð ég mig fram í ungmennaráð Árborgar þar sem ég sat í fjögur ár og hef grúskað í þessu öllu saman meira og minna síðan,“ segir Pétur Már. En hvað er það við félagsstörfin sem heillar hann? „Ég á mjög erfitt með að setja punkt á það hvað það er sem höfðar til mín við þetta, en ætli það sé ekki bara samstaðan sem myndast þegar margt fólk vinnur að sameiginlegu verkefni af einskærum áhuga og býst ekki endilega við neinu í staðinn.“
Áhersla á félagsstörf frekar en bóknám
Eftir að Pétur Már hóf nám við Verzlunarskóla Íslands ákvað hann að leggja áhersluna frekar á félagsstarfið en bóknámið, og hefur hann verið ötull í félagsstarfi allan tímann. „Ég uppgötvaði snemma á fyrsta ári að Verzlunarskólinn getur kennt manni mun meira í gegnum félagsstarfið en bóknámið og boðið upp á fleiri tækifæri,“ segir Pétur Már. „Ég fékk að taka þátt í ræðuliðinu öll þrjú árin mín ásamt því að sitja í málfundarfélaginu, leika í bæði leikritinu og söngleiknum, keppa í Vælinu, söngkeppni skólans og á síðasta árinu mínu gegndi ég starfi sem forseti nemendafélagsins.“
En hvernig hefur nýjasta hlutverkinu verið tekið, bókaútgefandi?
„Móttökurnar fóru fram úr öllum væntingum og við höfum verið að fá fyrirspurnir úr ofboðslega mörgum áttum.“
„Nemendur í félagsstarfi, borgarfulltrúar, meðlimir húsfélaga og fyrirtækjarekendur eru þeir hópar sem mest hafa verið að óska eftir eintökum. Við Björn höfum verið að ræða það að prenta fleiri bækur,“ segir Pétur Már.
Námskeið eru einnig fram undan tengd efni bókarinnar, þeir hafa sett sig í samband við núverandi forseta nemendafélags skólans, Dag Kárason, og verður námskeið haldið fyrir nemendur í Verzlunarskólanum. „Ef það gengur vel ætlum við að bjóða fleiri skólum upp á þetta og jafnvel öðrum félagssamtökum eins og til dæmis ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka.“