Kvikmyndin End of Sentence hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Mannheim-Heidelberg.
Kvikmynd Elfars Aðalsteins, End of Sentence, hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Mannheim-Heidelberg sem fór fram dagana 14. – 24. nóvember. Þessu er sagt frá á vef Kvikmyndamiðstöðvar.
End of Sentence, sem er leikstýrt af Elfari og handritið skrifað af Michael Armbruster, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Edinborg síðastliðinn júní, auk þess sem að hún var opnunarmynd RIFF í ár.
Hollywood-leikarinn John Hawkes leikur eitt aðalhlutverkanna. Myndin fjallar um Frank Fogle sem leggur í vegferð til að uppfylla hinstu ósk eiginkonu sinnar, en hann þarf einnig að uppfylla loforð um að taka son þeirra Sean með.