Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-3.9 C
Reykjavik

„Eðlilegt að töluðu sé íslenska og svo þyrftu bara þeir sem ekki kunna hana að læra hana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur harmar það hvernig enska sé nú töluð á flestum viðburðum frekar en íslenska. Í það minnsta er það hans upplifun undanfarið. Hann segist hafa farið á ýmsa viðburði á Íslandi svo sem kvikmyndahátíð og ljóðalestur og í nær öllum tilvikum hafi verið töluð enska. Hann bendir á að ástæðan sé yfirleitt sú að einn eða tveir í salnum töluðu ekki íslensku. Eiríkur skrifar um þetta á vef sínum.

„Síðustu vikur hef ég sótt alls kyns menningarviðburði – farið á kvikmyndahátíð (þar sem viðtöl voru við leikara og leikstjóra eftir myndirnar), ljóðaupplestra, tónleika, panela og meira að segja hátíðarkvöldverð. Það sem allir þessir viðburðir áttu sameiginlegt er að þeir fóru fram að miklu leyti á ensku. Og þá er ég ekki endilega að tala um lögin sem voru sungin eða kvikmyndirnar sem voru sýndar – það var merkilegt nokk meiri tungumálabreidd þar. En kynningar á lögum og viðtöl og ræður og þar fram eftir götunum – þetta var allt á ensku. Oftar en einu sinni var það í kjölfar þess að sá sem stýrði viðburðinum spurði einfaldlega – „Er einhver í salnum sem talar ekki íslensku?“ (á ensku) og þegar í ljós kom að einhvers staðar í salnum leyndist einhver sem ekki skildi málið var skipt yfir í ensku. Sennilega er óþarfi að taka fram að ég hef aldrei heyrt neinn spyrja svona af sviði hvort það sé einhver í salnum sem ekki skilji ensku – og sennilega er það sjaldan. Kannski eru jafnvel fleiri á Íslandi sem ekki skilja íslensku en sem ekki skilja ensku,“ segir Eiríkur.

Hann segist þó sjálfur sekur um þetta. „Eitthvað af þessum viðburðum skipulagði ég vel að merkja sjálfur. Og í einu tilviki var það ég sem benti kynninum á að sennilega yrði hann að tala ensku. Í mörgum þessara tilvika, kannski öllum, var ágætis ástæða til þess að tala ekki íslensku heldur ensku – og ekki í boði að þýða jafn óðum eða sinna íslenskunni á annan máta,“ segir Eiríkur.

„Og þetta er víðar. Ég býð gjarnan í mat og það er sennilega oftar en ekki einhver í hópnum sem ekki talar íslensku og þá fer matarboðið fram á ensku. Á kaffihúsinu Heimabyggð, sem ég sæki oft í viku, fer öll afgreiðsla undantekningalítið fram á ensku – frá „good morning“ til „need a receipt?““

Hann segist uggandi yfir stöðu íslensku meðal ungmenna. „Ég – einsog margir foreldrar – býsnast stundum yfir því hvað börnin mín, aðallega það eldra, nota mikla ensku í sínu lífi (einu sinni reyndum við að múta syninum og vini hans til að sletta ekkert í einn sólarhring – þeir fengu fimm sénsa og entust samt ekki nema í rúman klukkutíma, og þögðu bara megnið af honum). En ég held satt best að segja að miklu stærri hluti míns lífs fari fram á ensku en þeirra. Mér finnst það svolítið sorglegt – ég vildi gjarnan að það væri bara eðlilegt að t.d. kynnar töluðu íslensku og svo þyrftu bara þeir sem ekki kunna hana að læra hana eða sætta sig við að skilja kannski ekki allt. En í mörgum þessara tilfella er staðan bara aðeins flóknari og ég sé enga almennilega lausn sem felur ekki sér einhvers konar útskúfun eða dónaskap í garð gesta eða þannig kröfur í garð viðburðahaldara sem erfitt (eða ómögulegt) er að fjármagna. Eða sem myndu gera flækjustigið það hátt að það nennti enginn að skipuleggja þá lengur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -