Neytandi vikunna heitir Ingibjörg Ágústsdóttir og er 52 ára, gift og á tvö börn á unglingsaldri. Hún er fædd og uppalin í einni afskekktustu og fegurstu sveit landsins, Árneshreppi á Ströndum, en hef síðan búið á mörgum stöðum, m.a. á Akranesi, Akureyri, í Skotlandi og Belgíu. Hún býr núna í Reykjavík ásamt fjölskyldu sinni og starfar sem dósent í ensku við Háskóla Íslands þar sem hún kennir breskar bókmenntir.
Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?
Nei mér finnst álagning ekki sanngjörn og matvöruverð á Íslandi er bara rosalega hátt. Stóru matvöruverslanirnar ættu að borga minna í arð, lækka laun toppanna (sem eru með alltof há laun) og draga úr álagningu, sýna alvöru samfélagsábyrgð og láta viðskiptavini njóta þess sem hægt er að spara. Svo virðist aldrei vera hægt að lækka nokkurn hlut í verði þó svo að forsendur gefi tilefni til þess, og allar glufur nýttar til að græða sem mest á neytendum. Svo ég nefni dæmi um okur þá finnst mér verð á mjólkurvörum, sérstaklega ostum og þannig vörum, vera alveg út úr kú (pun intended). Það er ekki í lagi að þurfa að borga næstum 800 krónur fyrir dós af rjómaosti. Það er náttúrlega engin raunveruleg samkeppni í gangi milli framleiðenda mjólkurvara og MS einokar markaðinn. En þegar kemur almennt að matvöru þá geri ég stundum verðsamanburð milli Krónunnar og Bónus (ég versla oftast í Krónunni) og þar er kannski í mesta lagi ein króna sem munar. Það er ekki marktækur verðmunur og alls ekki til marks um neina alvöru samkeppni. Ég er þó alltaf í mesta sjokkinu yfir matvöruverði hér þegar ég ferðast erlendis og bregð mér í matvöruverslun þar.
Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?
Ég hef gert það með því að versla kjöt beint frá býli, lengi sótti ég það og vann sjálf (gerði gúllas og hakk og fleira) en hef ekki lengur aðstöðu til þess. Núna kaupi ég lambakjöt og ærkjöt af bónda í sveitinni minni, kjötið þaðan er langbest – og fylli frystinn á haustin. Að auki reyni ég að kaupa þær matvörur sem ég nota mikið á tilboði þegar þannig er í boði. Ég kaupi tómata í dós og kókosmjólk í dós alltaf í Costco því þar fær maður margar dósir í pakkningu sem er miklu ódýrara en að kaupa eina og eina í Krónunni/Bónus. Ég nota þessa vöru mjög mikið í matargerð svo það borgar sig fyrir mig. Eins hefur það gefist vel að gera matseðla og skipuleggja fyrirfram hvað á að vera í matinn fyrir vikuna – vandamálið er bara að ég er ekkert alltaf mjög góð í að skipuleggja mig svo að það detta oft margar vikur niður og það þýðir fleiri ferðir í búðina! Annars fékk ég mjög gott matseðlaskipulag í Excel skjali inn á Facebook grúppunni Sparnaðar tips sem Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur var svo indæl að deila með okkur hinum, mæli með því að skoða það. Mér finnst líka gott að panta 2-3 rétti frá Eldum rétt við og við, það gerir skipulagið auðveldara þá vikuna og sparar mér jafnvel einhvern pening (eða að minnsta kosti minnkar matarssóun) því maður fær bara nákvæmlega þau innihaldsefni sem þarf í réttina frá þeim.
Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?
Við hjónin eyðum hellings tíma í að þvo plast – við endurnýtum plastpoka aftur og aftur sem dæmi. Ekkert mjög skemmtilegt en nauðsynlegt að mínu mati. Við flokkum ruslið, erum með sérstakar tunnur fyrir plast, pappír, gler og dósir. Mér finnst mikilvægt að reyna að leggja sitt af mörkum fyrir umhverfið.
Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?
Bækur eru minn Akkilesarhæll (kaupi aldrei nóg af þeim), og þeð er erfitt að standast það að kauða góðan kaffi latté bolla á hverfiskaffihúsinu.
Skiptir umhverfisvernd þig máli?
Já hún gerir það. Eins og ég sagði, þá flokkum við ruslið heima fyrir og við setjum föt og annað nýtilegt dót sem við notum ekki lengur í nytjagám. Við ætlum lika að skipta yfir í rafmagnsbíl sem fyrst – fyrir umhverfið en líka til að þurfa ekki að eyða svona miklum pening í bensín.
Hér að neðan deilir hún uppskrift með lesendum:
Þessi gúllassúpa er rosalega góð en þetta er uppskrift sem ég þróaði sjálf þegar ég átti fullt af ærgúllasi í frysti og þurfti að finna fjölbreyttari leiðir til að elda það.
600 gr ærgúllas
1 ds niðursoðnir tómatar, hakkaðir
1 ds kókosmjólk
500-600 ml sjóðandi vatn
1 msk Oscar grænmetiskraftur
½-1 msk Oscar lambakraftur
4 gulrætur, skornar í bita
1 laukur, saxaður smátt
4 hvítlauksrif, söxuð smátt
1-2 sentimetra bútur ferskt engifer, saxað smátt
1-2 tsk arabískt kjúklingakrydd, eða eftir smekk
1-2 tsk Madras karrí, eða eftir smekk
Salt
Svartur pipar
Smávegis chilli explosion flögur (frá Santa Maria)
1-2 dl rjómi
Laukur, hvítlaukur og engifer mýkt í olíu í potti. Gúllasið svo steikt með þar til brúnað. Tómatar, kókosmjólk og sjóðandi vatn sett út í pottinn, ásamt kryddi. Láta þetta malla í góðan tíma og svo er gulrótum bætt út í þegar 20-30 mín eru eftir af eldunartímanum. Gúllasið þarf að sjóða amk 1 klukkustund til að vera mjúkt, og helst lengur en það. Rjómanum bætt út í súpuna í lokin.