Nú er fundað í húsi Þjóðminjasafnsins; hafnarverkamenn eru þar á ferð.
Vilja þeir athuga og ræða þann möguleika að stéttin segi sig úr Eflingu og stofni nýtt kjarafélag; gangi í Alþjóðasamband flutningaverkamanna þegar kjarasamningar eru lausir; þann 1. nóvember næstkomandi.
Mbl.is segir frá.
Fyrrum trúnaðarmaður Eflingar, Aðalsteinn Björnsson, segir stofnun nýs félags hafa verið í burðarliðnum í nokkrar vikur og að mikil óánægja ríkji á meðal hafnarverkamanna með stjórn Eflingar; telur Aðalsteinn að Efling hafi brotið lög með skipun fulltrúa á ASÍ-þingið; aukinheldur hafi verið miklir samskiptaörðugleikar við ákveðna einstaklinga í stjórninni:
„Þetta er kynningarfundur. Við erum að sjá hvernig stemningin er fyrir því að mynda saman félag,“ segir Aðalsteinn.
Hann telur líklegt að þeir sem sæki fundinn hafi áhuga á slíkum gjörningi; segir þó alveg nauðsynlegt að greiða úr ýmsum lagaflækjum áður en það verði að veruleika.
Aðalsteinn nefnir einnig að engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi hverjir muni leiða félagið nýja sem enn hefur ekki hlotið nafn:
„Þetta er bara rétt að byrja.“