Leikurinn, ný saga eftir spennusagnahöfundinn vinsæla, Lilju Sigurðardóttur, mun birtast sem framhaldssaga á Facebook-síðu Forlagsins í fjórtán daga, einn kafli á dag þangað til á annan í páskum. Sagan birtist einnig á ensku á aðdáendasíðu Lilju, Lilja Sigurðardóttir Page, á sama tíma.
Embla Ýr Teitsdóttir, kynningarstjóri Forlagsins, segir hugmyndina hafa kviknað á skrifstofu Forlagsins í umræðum um hvað hægt væri að gera til að létta fólki lífið í samkomubanni og sóttkví.
„Núna þegar við erum öll í samkomubanni og margir í sóttkví kom upp þessi hugmynd um „samfélagsmiðlasögu“ hjá okkur í Forlaginu,“ segir Embla. „Við höfðum þá samband við Lilju og hún tók alveg ofboðslega vel í þetta og var byrjuð að skila frá sér köflum nánast samdægurs.“
Að sögn Emblu fjallar sagan um par sem er fast saman í sóttkví og annar aðilinn, Eva, kemur með hugmynd að leik sem felur í sér að Eva felur einn hlut í húsinu á dag og sögumaðurinn þarf að finna þann hlut. Þegar hann hefur gert það útskýrir Eva af hverju hún valdi þennan hlut til að fela. En þegar líður á leikinn fer sögumann að gruna að Eva sé ekki öll þar sem hún er séð.
Fyrsti kaflinn birtist í gær þannig að spenntir aðdáendur Lilju geta strax byrjað að fylgjast með sögunni og ekki nóg með það heldur geta þeir líka haft áhrif á framvindu hennar.
„Stundum fá lesendur að taka smá þátt með því að svara könnun eða koma með hugmyndir í athugasemdum,“ útskýrir Embla. „Þessi samfélagsmiðlasaga er með margar fléttur og fer ekki á milli mála að lesendur eiga eftir að bíða spenntir eftir næsta kafla.“