„Það hringir náungi í mig sem þykist vera lögfræðingur. Hann segir við mig að hann sé að hringja fyrir hönd geranda míns og ætli að kæra mig fyrir brot á mannorði ef ég held ekki kjafti.“
Þetta segir ung kona, nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð, í hlaðvarpinu Eigin konur sem Edda Falak stýrir. Konan greinir frá stemmingunni innan skólans, sem virðist hafa verið góð undanfarið. Greint er frá efni þáttarins á Facebook.
Stúlkan bendir á að hún hafi bara verið 17 ára og ekki vitað betur en að þetta væri alvöru lögfræðingur. Hún segir nafn geranda síns hafa verið skrifað á vegg skólans og í kjölfarið fór hún að fá hótanir frá vinum hans og fjölskyldu.
„Hann dregur mig inn í eitthvað herbergi og ég segi við hann að við séum bara vinir. Þegar hann byrjar að draga niður buxurnar mínar, að þá frýs ég alveg. Í fyrsta lagi er hann svona þrisvar sinnum þyngri en ég. Ég hefði aldrei getað ýtt honum af, hann er miklu stærri og sterkari en ég, þú veist, þettta er bara svona. Ég ætlaði bara að bíða eftir að þetta yrði búið,” segir hún.
Svo virðist sem margir hafi varið þennan unga mann með kjafti og klóm. Stúlkan segist hafa verið skelkuð. Eigin konur birta skjáskot af skilaboðum sem hún mun hafa fengið.