Óhætt er að segja að samfélagið logi eftir að fregnir bárust af handtöku fimm manna fjölskyldu frá Írak en í henni er einn fatlaður einstaklingur í hjólastól. Voru þau send til Grikklands þar sem fátt bíður þeirra nema gatan.
Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi skrifaði pistil um málið á Instagram.
„Svona fara íslensk stjórnvöld með fatlað flóttafólk og fjölskyldu þess! Lögreglan mætir fyrirvaralaust heim til fólks og frelsissviptir það, setur hluta fjölskyldunnar í gæsluvarðhald og heldur öðrum fjölskyldumeðlimum nauðugum, fyrst á heimilinu, síðan á felustað sem fannst, og núna á flugvellinum!
Allt til þess að brottvísa þeim á götuna í Grikklandi áður en aðalmeðferð í máli þeirra gegn íslenska ríkinu á að fara fram þann 18. nóvember n.k.
Með brottvísuninni kemur íslenska ríkið í veg fyrir að Hussein, sem notar hjólastól og þarf aðstoð við allar daglegar athafnir, geti sótt þingstað og sagt skýrt og satt frá sinni upplifun. Það vilja íslensk stjórnvöld alls ekki að gerist og því er Hussein sendur til Grikklands, án hjólstóls (hann er með lánsstól hér á landi), þar sem hann mun enga heilbrigðisþjónustu fá og óvíst með hjálpartæki.
Þetta er meðferð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á flóttafólki í sérstaklega viðkvæmri stöðu!“