Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, lét hafa eftir sér í viðtali við útvarpsþáttinn Bítið á Bylgjunni að matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir ætti að „taka pokann sinn“ – en Inga var til viðtals um dýraníð í Borgarfirði sem Mannlíf hefur fjallað mikið um.
„Þetta er dýraníð af verstu sort,“ sagði Inga í viðtalinu.
Kemur fram í grein Fréttablaðsins að Svandís hafi kallað nýverið eftir upplýsingum frá MAST um framkvæmd eftirlits og verkferla vegna velferðar dýra er grunur leikur á að umráðamenn séu ekki að uppfylla ákvæði laga, hvort sem um er að ræða almennt eftirlit eða samkvæmt ábendingum sem stofnuninni berast.
Í erindi sínu til MAST óskaði hún einnig eftir upplýsingum um hvort stofnunin telji skort á heimildum í lögum til að tryggja velferð dýra; hvort grípa þyrfti til viðeigandi ráðstafana þegar aðstæður krefjast þess.
Inga sagði að það þyrfti að tryggja mun betur eftirlit með öllu dýrahaldi; að það þyrfti að vera gert „af hörku en ekki linkind.“
Vill Inga vill breyta lögunum þannig að hægt sé að kæra dýraníð beint til lögreglu; ekki í gegnum MAST – og að lögreglan beiti sér mun meira í slíkum málum:
„Ráðherra, í rauninni á einhverjum stöðum, þá myndi ráðherra sem lætur svona lagað viðgangast á sinni vakt, hann myndi einfaldlega taka pokann sinn,“ sagði Inga.