„Á dögunum sagði læknir nokkur hér á landi sem bæði er hugrakkur og mannvinur frá því hvernig hann og fleiri kollegar hans hafa hjálpað fólki með fíknivanda sem er bjarglaust, heimilislaust og hefst við á strætum og skúmaskotum í þerri hörmung sem er hlutskipti fólks í þessum aðstæðum.“
Svo hefst færsla myndlistamannsins Tolla Morthens á Facebook en hún hefur vakið nokkra athygli. Þar fer Tolli yfir það hvernig stríðið gegn fíkniefnum hefur valdið þjóðinni ómældum miska. Nú sé komið gott af þeirri stefnu, með fyllingu tímans mun engin mæla henni bót.
Tolli heldur áfram: „Ég tek að ofan fyrir þessum læknum, það er ömurlegt hvað við mætum oft þessum heimilislausa fólki sem eru ofurseld fíknisjúkdómum af mikilli grimmd og fordómum eins og umræddur læknir bendir á.
Á dögunum horfðum við á eftir ungum manni ekki nema 22 ára gömlum hverfa út í myrkrið heltekinn fíkn , það var ekkert sem greip hann annað en þessi svarti straumur sem bar hann út í óminnið, það er eins og maður horfi á mann falla milli skips og bryggju þar sem hann treður marvaðann í ísköldum sjónum uns hann gefst upp og sekkur en á meðan stöndum við á bryggjunni og fylgjumst með en aðhöfumst ekkert.
Þessi ungi maður sem ég hef í huga lést af of stórum neyslu skammti aðeins 10 dögum eftir að hann féll í strauminn,“ skrifar Tolli.
Hann segir stefnuna í raun höfuðpaur glæpagengja, þau myndu ekki þrífast nema í skjóli hennar. „Það eru komnir brestir í þennan múr sem við köllu “ Stríð gegn fíkniefnum“ sem hefur valdið ómældum hörmungum um heim allan og er í raun móðir stærstu glæpasamtaka heimsins og heldur stöðugt áfram að næra harminn sem eltir fíknisjúklinga.
Þennan múr þarf að mola niður og lofa mannúð og samkennd streyma inn í líf þeirra sem eru háðir þessum efnum, við verðum að setja upp úrræði þar sem við hjálpum fíklum að nota efnin á öruggan hátt og stýra neyslu þeirra inn á lygnan sjó og þar má finna bata.
Valdmiðuð nálgun sem elur á ótta og fordómum mun aldrei leysa nein vandamál í mannlegri tilveru en það getur samkennd og kærleikur.
Ást og friður“