- Auglýsing -
Hlynur nokkur trúði varla sínum eigin augum þegar hann verslaði nýlega hamborgara á skyndibitastaðnum Aktu-Taktu. Þegar hann óskaði eftir því að fá kálblað á hamborgarann sinn stóð til að rukka hann aukalega fyrir. „159 krónur tjáði ung afgreiðslustúlkan mér,“ segir Hlynur.
Hlynur segir nánar frá upplifun sinni í fjölmennu samfélagi á Facebook, Vertu á verði – eftirlit með verðlagi:
„Kom við hjá Aktu-Taktu í dag og athugaði hvort ennþá væri sú stefna hjá fyrirtækinu að borga þyrfti aukalega fyrir kál á hamborgara þess. Jú, reyndist svarið. 159 krónur tjáði ung afgreiðslustúlkan mér. Ég brosti til hennar og vildi ekki vera dónalegur og nota harkalegri orð við greyið stelpuna. Hún stjórnar ekki spillingunni á Íslandi.“
Fjölmargir meðlimir hópsins furða sig á að greiða þurfi aukalega fyrir kálblaða á hamborgarana á staðnum og fullyrða að þeir séu sumir hættir að versla við Aktu-Taktu. Á meðan eru aðrir sem verja verknaðinn og telja þetta óþarfa gagnrýni af hálfu Hlyns.