Lögregla handtók mann sem hafði brotið rúðu í Hlíðunum í gærkvöldi. Lögreglan hafði í tvígang þurft að hafa afskipti af sama manni fyrr um daginn og var hann í annarlegu ástandi. Ekkert annað kom til greina en að vista manninn í fangaklefa. Aðilar á rafskútum skullu saman í gær. Lögregla og sjúkraflutningabifreið voru kölluð til en meiðsli voru sem betur fer minniháttar.
Síðar um kvöldið handtók lögregla tvo menn sem grunaðir eru um sölu og dreifingu fíkniefna. Mennirnir voru vopnaðir rafvopni sem lögregla lagði hald á og voru þeir í kjölfarið vistaðir í fangaklefa. Tilkynnt var um líkamsárás á knattspyrnuvelli í gærkvöldi. Þar hafði leikmaður á varamannabekk fagnað marki liðsfélaga síns sem varð til þess að mótherji þeirra reiddist verulega. Gekk hann til hans og sló hann í höfuðið með krepptum hnefa. Þá stöðvaði lögregla ökumann vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna og annan fyrir of hraðan akstur.