Menningar-og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, er ánægð með skýrslu ríkisendurskoðunar á sölu hluts ríkisins í Íslandsbanka:
„Þessi skýrsla mjög góð. Hún fer vel yfir það hvernig staðið var að sölunni og það sem hún er að segja okkur er að það er margt þarna sem hefði getað farið betur, þannig að ég er mjög ánægð með þessa skýrslu,“ segir Lilja í samtali við Fréttablaðið.
Lilja hefur áður lýst yfir vonbrigðum sínum með framkvæmd sölunnar; segir Lilja að skoðanir hennar hafi ekki breyst:
„Hún passar mjög vel við þær áhyggjur sem ég hafði,“ segir Lilja um skýrsluna. „En við skulum átta okkur á einu: Framkvæmdin er mislukkuð. Ég hefði viljað hafa almennt útboð í stað þess að fara þessa tilboðsleið. Það hefði alveg getað verið þannig að ég hefði haft rangt fyrir mér og þarna var ráðherrann og fleiri að fara eftir ráðleggingum þeirra sem vinna við söluna. Þannig að skýrslan kemur ekki á óvart en við megum heldur ekki gleyma því að við settum á laggirnar á sínum tíma sérstaka stofnun til þess að fara með þessi mál og þetta voru hennar ráðleggingar og ekki bara hennar heldur þeirra sérfræðinga sem hún var að styðja sig við,“ segir Lilja og bætir við:
„En ég held að það sem Bankasýslan áttaði sig ekki á og þeir erlendu sérfræðingar sem voru að ráðleggja henni, bæði hvað markaðurinn hér á landi er grunnur og í raun og veru hvað við erum fámennt samfélag.“