Lögreglan á Suðurlandi biðlar til netverja um aðstoð við leit að manni sem greip í stúlkubarn og reyndi að fá hana með sér síðdegis í gær. Stúlkan slapp undan manninum ómeidd en augljóslega nokkuð brugðið.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu átti atvikið sér stað á leið suður eftir göngustíg við Fosstún á Selfossi (milli Fosstúns og Þóristúns), til móts við hús nr. 8. upp úr kl. 17:00 í gær. Í skýrslutöku hjá lögreglu gaf stúlkan greinargóða lýsingu á manninum þar sem fram kom meðal annars að hann hafi verið í svörtum buxum og dökkum jakka.
Lögregla leggur áherslu á að upplýsa málið hið fyrsta og biðla til allra þeirra sem veitt geta upplýsingar um manninn eða annað sem kanna að skipta máli að leita til lögreglunnar. Hægt er að ná sambandi við lögregluna á Suðurlandi í síma 444-2000 eða með því að hringja í 112. Jafnframt má senda upplýsingar á netfangið [email protected]