Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, býður sig aftur fram til kjörs um að verða forseti á nýjan leik. Þetta tilkynnti hann í gærkvöldi á blaðamannafundi frá heimili sínu í Flórída en kosið verður í embættið í nóvembermánuði 2024.
„Til að gera Bandaríkin öflug á nýjan leik tilkynni ég nú um framboð mitt til forseta Bandaríkjanna,“ sagði hann á meðan viðstaddir réðu sér varla fyrir fögnuði.
Þær sögusagnir hafa lengi verið á sveimi að Trump hafi ætlað sér að gefa aftur kost á sér. Nú hefur hann staðfest þær sögusagnir og virðist hvergi banginn þrátt fyrir að hafa tapað forsetakosningunum árið 2020.
„Ástandið í þessu landi er skelfilegt. Það er gert grín að okkur og það er litið niður á okkur. En það þarf ekki að vera þannig. Í kvöld gefum við Bandaríkjamönnum annan valkost,“ sagði Trump í gær.