„Við hjá Bankastræti umberum ekki ofbeldi af neinu tagi,“ segir Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club, eftir skelfilega hnífaárás hettuklæddra árásarmanna á staðnum í nótt sem leið. Hún segir þá gesti sem stungnir voru hafa slasast alvarlega en séu þó ekki í lífshættu.
„Í kvöld mætti stór hópur manna í miðbæ Reykjavíkur í leit að ákveðnum aðilum sem þeir fundu inni á Bankastræti og réðust á. Viðkomandi slösuðust alvarlega og voru fluttir á slysadeild en eru ekki í lífshættu,“ segir Birgitta Líf á Instagram.
Sjá einnig: Hettuklæddir hnífamenn réðust inn á Bankastræti Club – Þrír slasaðir eftir hnífaárás
Hópur hnífamanna réðst inn á skemmtistaðinn Bankastræti Club í miðborginni rétt eftir miðnætti í nótt. Að minnsta kosti þrír eru særðir eftir hnífaárásina.
Mikill viðbúnaður lögreglu var við skemmtistaðinn í nótt og þar á meðal fjöldi sérsveitarmanna. Vitni að árásinni segja að hnífamennirnir hafi hulið höfuð sitt og náð að flýja undan á bíl. Sérsveitarmenn fór inn á staðinn og slökkt á allir tónlist.
Birgitta er afar þakklát öllum þeim sen hjálpuðu í gærkvöldi. „Við hjá Bankastræti umberum ekki ofbeldi af neinu tagi og leggjum mikið upp úr öryggi gesta okkar og þjálfun starfsfólks,“ segir Birgitta Líf. „Þökkum guði að ekki fór verr. Ofbeldi á hvergi heima,“ bætir hún svo við.