„Ég hlustaði áðan á síðasta þáttinn um Skeggja. Mjög góður þáttur eins og þeir fyrri hafa verið. Hljóðmyndin alveg meistaraleg eins og jafnan hjá Þorsteini J., þeim flinka útvarpsmanni, hann notaði tónlist þessara ára, og síðan rödd Skeggja úr barnatímunum með reglulegu millibili svo að yfir mann hvolfdist þrúgandi menningarandrúmsloft …“
Þetta segir Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, á Facebook-síðu sinni. Guðmundur vísar til þátta RÚV um barnaskólakennarann Skeggja Ásbjarnarson og meint barnaníð hans, en það er fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. rannsakar málið.
„Þorsteinn J. á miklar þakkir skildar fyrir þessa þætti. Nú hlýtur eitthvað að gerast. Ríkisútvarpið þarf að biðjast afsökunar á sínum hlut í að gera þennan mann að ósnertanlegri stjörnu (það er svo einkennilegt að ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni hlustað á barnatímann hans, ég held að mér hafi einhvern veginn ekki fundist þátturinn ætlaður mér – og hlustaði ég þó mikið á útvarpið sem krakki),“ segir Guðmundur Andri.
Svo eru fleiri sem þurfa að biðjast afsökunar. „Laugarnesskóli þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum; skjalasöfnin þarf að opna upp á gátt, það þarf að finna bréfið sem stelpurnar hugrökku skrifuðu skólastjóranum 1966 og önnur gögn sem kunna að leynast einhvers staðar; það þarf að fara fram rannsókn, annað er hreinlega óviðunandi.“