Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
0.9 C
Reykjavik

Snævar bíður eftir sjöttu kynleiðréttingaraðgerðinni: „Ég er pínu tilraunadýr í þessu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er mjög erfitt andlega að bíða en ég er að bíða eftir síðustu aðgerðinni,“ segir Snævar Óðinn Pálsson sem er búinn að fara í fimm aðgerðir í tengslum við kynleiðréttingarferli og er sú sjötta og jafnframt síðasta eftir. Hann segir að málið snúist um að skurðlæknirinn sem mun framkvæma aðgerðina geri samning við Landspítalann. „Ég er búinn að fara í tvær kynfæraaðgerðir og þriðja kynfæraaðgerðin, sem er þessi sjötta aðgerð í heildina, felst í því að málmplata verður fest við lífbeinið og úr henni kemur stafur sem er settur inn í getnaðarliminn og þá mun ég geta beygt hann upp og haft hann í reisn eða ekki. Þessi aðgerð hefur ekki verið gerð oft hér á landi þannig að ég er pínu tilraunadýr í þessu þannig að það verður bara spennandi að sjá. Biðin eftir þessari aðgerð hefur ekki áhrif á útlitið heldur gæði mín í kynlífi. Þetta er erfitt andlega; það er andlega erfitt að bíða eftir þeirri aðgerð.“ Áður hafði Snævar farið í brjóstnám, lagfæringu á brjóstnáminu og legnám.

 

Mjög hrætt barn

Snævar fæddist í líkama stúlku á Akureyri fyrir 32 árum og þar ólst hann upp. Hverjir voru draumarnir í æsku?

„Ég ætlaði að verða forseti.“ Hann segir frá fleiru. „Þegar vinir mínir í leikskólanum spurðu hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór þá var svarið „strákur“. Það var eins og ég áttaði mig á því að að það væri eitthvað að. Þegar ég kom út sem trans árið 2014, 23 ára gamall, sagði æskuvinkona mín, sem ég hafði kynnst í leikskóla, að hún vissi að ég væri trans.“

Geðlæknirinn sem ég hitti þegar ég ákvað að fara í kynleiðréttingarferli sagði að þetta væri örugglega tengt því að ég var transbarn.

Snævar var sendur til sálfræðings sjö ára gamall og var greindur með áráttu- og þráhyggjuröskun sem og kvíðaröskun og hefur síðan tekið lyf. „Geðlæknirinn sem ég hitti þegar ég ákvað að fara í kynleiðréttingarferli sagði að þetta væri örugglega tengt því að ég var transbarn; það hefði örugglega mikið að segja að alast upp í röngu kyni en ég var að díla við það. Svo hef ég líka dílað við átröskun. Ég var bara mjög veikur þegar ég var unglingur og ungur einstaklingur.“

- Auglýsing -

Snævar segir að þráhyggju- og árátturöskunin hafi falist í að hann var á tímabili hræddur við allt. „Ég var hræddur við grenitré ekki af neinni ástæðu. Ég var hræddur við múmíur ekki af neinni ástæðu. Ég fékk áráttu fyrir einhverju og var bara hræddur. Ég var mjög hrætt barn. Ég hef heyrt að ég hafi verið mjög ákveðinn til að byrja með þegar ég fór í leikskóla en um leið og ég byrjaði í grunnskóla þá byrjaði ég að fá þessi einkenni áráttu- og þráhyggjuraskana og kvíðaraskana. Ég var bara mjög kvíðið barn. Bara mjög svo. Ég dílaði alltaf við mikið stress.“

Snævar var 17 ára menntaskólanemi þegar hann eignaðist vin sem er transkona í dag. „Þetta var mikill „live changer“. Vá, ég skildi hvað hún átti við og þá skildi ég hvað var í gangi hvað mig varðaði. En ég þorði ekki og hafði hvorki andlega né líkamlega getu til að fara í gegnum ferlið þegar ég var 17 ára. Ég átti við mikinn geðrænan vanda að stríða og fór ekki í ferlið fyrr en ég var 23 ára. En ég fann fyrir gleðitilfinningu þegar ég var loksins kominn með orð yfir það 17 ára gamall hvernig mér leið og það var mikill léttir þótt ég hafi ekki farið í gegnum ferlið strax.“

Ég keypti stelpuföt og hún keypti strákaföt og svo skiptum við.

Sævar segir að þau hafi stundum farið að versla. „Ég keypti stelpuföt og hún keypti strákaföt og svo skiptum við. Þegar hún kom út byrjaði ég að klæðast strákafötum en ég var líka stundum í stelpufötum en mér fannst ekkert gaman að fara í kjól.“

- Auglýsing -

Snævar segist aðallega hafa talað við vin sinn, vinkonu sína, um það að hann væri trans og svo fór hann að nefna þetta við aðra vini sína um það leyti sem hann kom út sem trans nokkrum árum síðar. „Þegar ég var 20-23 ára var ég aðeins að planta „the seeds“; þá sagði ég til dæmis að ég hefði verið að horfa á myndband um transstráka og það væri áhugavert hvernig þeir færu í gegnum ferlið. Vinir mínir spurðu af hverju ég væri að pæla í þessu. Ég talaði líka um þetta við foreldra mína. Ég sagði þeim svo árið 2013 að ég væri að fara að hitta geðlækninn sem fólk sem hefur áhuga á að fara í kynleiðréttingarferli talar gjarnan við og þau spurðu mig hvort ég væri að fara í transferli. Ég sagðist halda að það væri málið.“

Efaðist Snævar aldrei?

„Nei, ég held ekki.“

Mútur og hárvöxtur

Það var í mars árið 2014 sem Snævar hitti geðlækninn. „Hann sagði að ég skyldi næstu 12 mánuði klæða mig eins og karlmaður, velja mér karlmannsnafn og lifa í samfélaginu eins og karlmaður og að hann myndi svo skoða það að láta mig á karlhormóna eftir 10 – 12 mánuði. Það var ömurlegt að þurfa að bíða en þetta gekk mjög vel og allir í kringum mig tóku þessu vel,“ segir Snævar sem segist ekki hafa orðið fyrir fordómum þó að einn og einn hafi komið með komment í gegnum tíðina. „Ég átti erfitt með að fela brjóstin en ég var með stór brjóst. Svo var ég með háa rödd.

Þetta fór svo að tikka um leið og ég byrjaði á hormónum í febrúar ári síðar. Þá fór mér að líða miklu betur. Þetta var bara allt annað. Röddin byrjaði að breytast tveimur til fjórum vikum eftir að ég byrjaði á hormónunum. Það var eins og ég væri kominn með hálsbólgu en ég var kominn í mútur og ég var í mútum í ábyggilega 10 mánuði. Röddin var það fyrsta sem breyttist. Svo fór ég að fá hár út um allt; það poppuðu upp hár til dæmis á bringunni, upphandleggjunum og bakinu. Ég fékk hins vegar ekki skegg. Ég fór í blóðprufu eftir að hafa verið búinn að taka karlhormóna í eitt ár og þá kom í ljós að ég væri með of lágt testesterón og þá fór ég að taka skammtinn á 10 vikna fresti í stað þess að gera það á 12 vikna fresti og þá fór ég að fá skegg.“

Ég var eins og unglingsstrákur og mér leið svo vel með allar þessar tilfinningar.

Snævar segir að breytingar á andlegri líðan hafi verið miklar í fyrstu eftir að hann fór að taka karlhormóna. „Ég fór á fyrstu vikunum að finna fyrir ofsalega mikilli orku og ég gat borðað mjög mikið. Ég var eins og unglingsstrákur og mér leið svo vel með allar þessar tilfinningar. Ég hugsaði með mér að ég væri loksins að ganga í gegnum það sem ég hefði átt að ganga í gegnum sem unglingur en fékk ekki. Ég væri þó loksins að ganga í gegnum þetta en með heila fullorðinnar manneskju. Það var þess vegna svolítið erfitt að fara í gegnum kynþroskann vitandi allt sem ég veit sem fullorðinn einstaklingur en vera með tilfinningar á við ungling. Þetta var pínulítið skrýtið. Þannig að fyrstu tvö árin voru „erfiðust“ hvað varðar allar breytingarnar og ég var að læra inn á sjálfan mig upp á nýtt.“

Snævar Óðinn Pálsson

Sílíkonkúlur sem eistu

Snævar fór í fyrstu aðgerðina, brjóstnámið, í desember 2015. Og hann efaðist aldrei.

„Ég gat ekki beðið eftir þessari aðgerð. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa líðaninni eftir aðgerðina; ég var svo ánægður. Ég var loksins laus við þetta,“ segir hann og á við brjóstin. „Það var svo þægileg tilfinning.“

Hann segir að mestu verkirnir hafi verið í kjölfar kynfæraaðgerðanna tveggja.

Í aðgerðinni var tekin húð og hluti af tveimur lærvöðvum til að búa til getnaðarlim; það vantar á mig part af tveimur lærvöðvum og þess vegna þurfti ég að læra að ganga upp á nýtt.

„Ég fór í þá fyrri í desember 2017 og mestu verkirnir fylgdu henni og ég var óvinnufær í meira en mánuð og þurfti að fara í sjúkraþjálfun til að læra að ganga upp á nýtt og það var bara heill pakki. Í aðgerðinni var tekin húð og hluti af tveimur lærvöðvum til að búa til getnaðarlim; það vantar á mig part af tveimur lærvöðvum og þess vegna þurfti ég að læra að ganga upp á nýtt. Ég er í sjúkraþjálfun af því að ég fæ verki af og til og þetta er til trafala en ég læri bara að lifa með þessu og það gengur bara vel. Göngulagið er orðið eðlilegt; það þurfti nokkra mánuði eftir aðgerðina til að komast í gang en svo lagaðist þetta.“

Snævar fór í aðgerðina með kynfæri konu en vaknaði með getnaðarlim. „Það var einhvern veginn svo rétt. Þetta átti að vera svona.“

Hann segir að ekki sé búið að fullkomna aðgerð til að lengja þvagrásina þannig að hann pissar eins og hann gerði fyrir aðgerðina. „Ég pissa ekki með getnaðarlimnum. Það hafa verið gerðar slíkar aðgerðir sums staðar erlendis en þær hafa sumar mistekist; það hafa komið upp sýkingar og það hefur farið að leka. Þetta er bara vesen. Ég fékk sýkingu eftir aðra aðgerðina á kynfærum þegar settar voru sílíkonkúlur sem eistu, en það var teygt á húðinni sem var þar og settar kúlur í, og fékk ég sýkingu í annað eistað og lá á sjúkrahúsi í nokkra daga. Ég fékk sýklalyf og svo var þetta allt í lagi.“

Snævar segir að núna þori hann loksins að fara í sund og að hann hafi ekki áhyggjur af neinu þegar hann fer í sund. „Èg get stundað heilbrigt kynlíf og mér líður bara vel með það. Það hefur bara verið gott. En það er leiðinlegt að vera ekki með reisn. Ég fíla mig samt alveg í kynlífi.“

Snævar Óðinn Pálsson

Á geðdeild

Snævar var í námi í félagsvísindum og nútímafræði við Háskólann á Akureyri en hann hætti í náminu eftir að hann fór að taka karlhormónana og fór að vinna. „Ég hafði unnið í Rúmfatalagernum með námi en ég fór svo að vinna þar í fullu starfi í eitt ár, ég fór síðan að vinna á bar þar sem ég vann í þrjú ár og þá fór ég að vinna hjá Póstinum í dreifingu og sem bréfberi og vann þar þangað til ég fór í veikindaleyfi í ársbyrjun 2021. Þá var ég bara kominn með svo mikla kvíðaröskun og áfallastreituröskun að ég gat ekki unnið. Það má segja að ég hafi fengið taugaáfall og er núna í endurhæfingu.“

Þetta var snjóbolti sem rúllaði og rúllaði og varð alltaf meiri og á endanum gafst ég upp.

Snævar segir að hvað áfallastreituröskunina varðar tengist hún nokkrum áföllum sem hann hafði ekki verið búinn að vinna úr svo sem kynferðisofbeldi þegar hann var unglingur og það að hann datt úr báti þegar hann sigldi ásamt fleirum niður á í svokölluðu „river rafting“ og hélt að hann væri að deyja. „Ég fékk enga áfallahjálp eftir þetta og ég átti erfitt með að fara í sturtu og að fá vatn á andlitið á mér.“ Svo voru kvíðaköstin slæm. „Síðan var ég líka kominn með mjög mikla átröskun; ég var farinn að svelta mig og í ágúst í fyrra var ég kominn niður í 49 kíló,“ segir Snævar sem segist vera 166 sentímetrar á hæð. „Ég var farinn að svelta mig þannig að heilinn var ekkert að virka vel. Þetta var snjóbolti sem rúllaði og rúllaði og varð alltaf meiri og á endanum gafst ég upp. Ég gat ekki unnið út af hræðslu, kvíða og þunglyndi.“

Snævar hafði verið í sambandi sem lauk á þessum tíma og daginn eftir fór hann inn á slysadeild og sagðist þurfa hjálp frá geðdeildinni þar sem hann væri með sjálfsvígshugsanir og gæti ekki meira. Þá var hann lagður inn á geðdeild. „Þá fór boltinn að rúlla. Þá fékk ég hjálp frá geðdeildinni og lá inni í nokkrar vikur. Svo fékk ég inni hjá göngudeildinni og var mjög lengi í endurhæfingu hjá þeim. Núna er ég í endurhæfingu hjá VIRK.“

Snævar Óðinn Pálsson

Ley

Bróðir Snævars býr í Kanada og þangað fór Snævar í sumar ásamt foreldrum sínum og systur sinni og börnum hennar. Þar kynntist hann Ley Freser.

„Þetta er manneskja sem er non-binary; kynsegin eða hán. Á Wikipedia segir: „ Kynsegin er hugtak sem nær yfir fólk sem skilgreinir kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins. Sumt kynsegin fólk er t.d. karlkyns og kvenkyns, annað hvorki karlkyns né kvenkyns eða skilgreinir ekki kyn sitt. Kynsegin er því í raun regnhlífarhugtak undir regnhlífarhugtakinu trans.“

„Ley fæddist í kvenmannslíkama og er með kvenmannslíkama,“ segir Snævar, „og er ekkert ósátt við það heldur er bara non-binary. Við kynntumst úti í Kanada og fórum á tvö deit og eftir þessi tvö deit var ég alltaf heima hjá Ley. Við bara byrjuðum saman og erum ótrúlega hamingjusöm og ætlar Ley að koma til Íslands um jólin og verður hjá mér um jólin og áramótin. Það er bara æðislegt.

Kynvitundin hjá hán er rosalega „fluid“. Hán skilgreinir sig hvorki sem karl eða konu heldur bara sem manneskju.“

Ég skilgreini mig sem pansexual.

Snævar segir að hann hafi í um 90% tilvikum í gegnum tíðina heillast frekar af kvenlegum manneskjum sem skilgreini sig sem hún eða hán. „Ég heillast af þessu kvenlega eðli. Ég hef verið í sambandi með manni og ég hef alveg stundað kynlíf með karlmönnum en ég er bara hrifinn af þeim í svo minnihluta tilfella. Ég skilgreini mig með pankynhneigð; í því felst að hrífast að persónu óháð kyni. Vera hrifinn af persónuleika.“

Fylgja innsæinu

Snævar er spurður hvað hann hafi lært af þessu öllu sem hann hefur gengið í gegnum. „Það mikilvægasta sem ég hef lært af þessu er að vera trúr sjálfum mér, að fylgja innsæinu og fylgja því hvernig mér líður í hjartanu og fylgja því eftir. Ekki hlusta á hvað aðrir segja svo sem að ég væri ekki trans eða að ég væri lesbía. Og það má alltaf hætta við; það má alltaf bakka og breyta. Það hefði ekkert verið að því ef ég hefði byrjað að taka karlhormóna en gert mér svo grein fyrir því að þetta væri ekki fyrir mig. Ég hefði alveg verið „jafnvalid“ manneskja.“

Snævar segist dreyma um að vinna með transfólki í framtíðinni og þar á meðal transbörnum. „Mig langar að hjálpa þeim í gegnum ferlið og mig langar að geta verið stuðningsaðili hvort sem það væri í sjálfboðaliðastarfi eða hvort ég færi í sálfræði. Ég veit það ekki. En mig langar að vinna með transfólki og miðla af reynslu minni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -