Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Hugh Cornwell

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar hann gekk inn á elliheimilið í þeim tilgangi að heimsækja aldraðan og nokkuð líkamlega þreyttan föður sinn sótti bæði svefn og svimi að Þórði.

Það stóð stutt yfir enda gekk í sömu andrá framhjá honum maður sem var í útliti mjög líkur Hugh Cornwell fyrrum söngvara hljómsveitarinar The Stranglers; það er að segja eins og Þórður ímyndaði sér að Hugh Cornwell myndi líta út eftir áttrætt.

Hæ Hugh, sagði Þórður nokkuð hátt, og brá mjög við.

Hvað var hann eiginlega að pæla? Það var ekki líkt honum að gera svona.

Maðurinn sem leit út eins og Hugh Cornwell að mati Þórðar virtist þó ekkert hafa heyrt í Þórði.

Á þessum tímapunkti ákvað Þórður að finna málverk á vegg, en af þeim er yfirleitt nóg á íslenskum elliheimilum, og stara á það í góða stund í þeirri veiku von um að þannig kæmist hann til sjálfs síns.

- Auglýsing -

Þórður hafði ekki alveg verið með sjálfum sér undanfarna daga, og var farinn að sakna þess.

Þórður vonaði af einhverjum ástæðum sem honum fundust óskiljanlegar að maðurinn sem honum fannst vera líkur Hugh Cornwell væri raunverulega Hugh Cornwell og reyndar fannst honum það æ líklegra með hverri mínútunni sem hann starði á málverkið af togaranum sem strandaði ekki svo langt frá þeim stað sem elliheimilið var byggt á þremur áratugum síðar.

Hann hafði ekki alveg verið með sjálfum sér undanfarna daga.

- Auglýsing -

Svimi, svefnmók og strand var eitthvað sem Þórður vissi alltaf að myndi sækja á sig eftir því sem hann yrði eldri og hann rifjaði gjarnan upp orð Aðalbjargar sem hann vann eitt sinn með á bókasafni þess efnis að lífið væri eins og búmerang.

Það hafði Þórði alltaf fundist góð líking. Bæði það góða og það illa sem þú gerir kemur til baka áður en þú yfirgefur þennan heim.

En þegar Þórði fannst allt í einu komið saltbragð í munn sinn og að hann væri að farast með skipinu ákvað hann slíta augun af málverkinu og reyna að einbeita sér að heimsókninni til föður síns sem hann hafði vanrækt undanfarnar vikur og skammaðist sín fyrir það.

Þegar Þórður hafði dvalið í um hálftíma hjá sofandi föður sínum heyrði hann sungið með lágværri en hrjúfri röddu úr næsta herbergi:

Golden brown texture like sun, lays me down with my might she runs. Throughout the night, no need to fight, never a frown with golden brown.

 

Lestu þennan pistill og marga fleiri í nýjasta tölublaði Mannlífs!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -