Átökin í undirheimunum hafa orðið til þess að starfsmannafélag Símans hefur ákveðið að fresta jólaglöggi starfsfólks sem átti að fara fram á morgun. Ríflega 150 starfsmenn höfðu boðað komu sína en hótanir um árásir í miðbænum um helgina hafa gengið manna á milli á samfélagsmiðlum.
Sá orðrómur gengur nú fjöllunum hærra að almenningur ætti að halda sig heima um næstu helgi og forðast djamm í miðbænum. Téður orðrómur snýst um það að um helgina megi búast við hefnaraðgerðum vegna hnífaárásarinnar á Bankastræti Club.
Sjá einnig: Almenningur varaður við djammi í bænum: „Þeir ætla um næstu helgi að stinga RANDOM FÓLK“
„Það er í rauninni bara út af þessu ástandi sem er komið upp varðandi skemmtanalíf í miðbænum, því miður. Og auðvitað öll þessi skjáskot sem hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Það var kominn svona óhugur í starfsmannahópinn, þannig þetta var svoldið svona okkar sameiginlega ákvörðun, bara öryggisins vegna,“ segir Inga María í samtali við Vísi:
„Við sáum okkur ekki annan kost í stöðunni en að fresta þessu fram í janúar og taka stöðuna svoldið þá. Þetta er náttúrulega óvissan sem er að skapa hve mestan óhug hjá okkur. Þannig að okkur fannst kannski vissara að fá að fá að fresta þessu aðeins. Og þó að tilhlökkunin hafi verið mikil og stefndi í flott partý að þá var kannski öruggara að fá að taka þetta aðeins seinna.“