Ákveðið hefur verið að banni gegn klæðnaði og fánum í regnbogalitunum verði aflétt á áhorfendapöllum leikvanga HM 2022 í Katar.
Kemur þetta fram í tilkynningu Knattspyrnusambands Wales, sem kvartaði við FIFA eftir að vallarstarfsmenn í Katar hirtu regnbogahatta, klúta og fána af stuðningsfólki Wales á mánudaginn.
Í sömu tilkynningu segir að FIFA hafi staðfest að áhorfendum verði hér eftir heimilt að flagga regnbogafánum og -fatnaði á leik liðsins gegn Íran núna á eftir; það sama eigi við á öllum leikjum á öllum leikvöngum það sem eftir er af mótinu.