Það var ekki alltaf auðvelt fyrir Unu Torfadóttur tónlistarkonu að alast upp sem barn stjórnmálakonunnar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Hún varð oft fyrir áreit annarra barna og þurfti fljótt að læra að svara fyrir sig.
„Það kenndi mér líka bara svolítið að standa með sjálfri mér og svara fyrir mig. Ég er bara þakklát fyrir það,“ segir Una í Dagmálum mbl.is og heldur áfram:
„Það sem er erfitt er að vera barn og því ekki alveg inni í málunum, og eiga einhvern veginn að þurfa að svara fyrir eitthvað sem maður skilur ekki, þegar einhverjir aðrir krakkar, sem skilja ekki heldur, ætla að vera með stæla.“
Svandís varð fyrst ráðherra þegar Una var aðeins átta ára gömul og segir hún það stundum hafa reynst henni erfitt.
„Ég er líka bara þakklát fyrir það að hafa aldrei þurft að skammast mín fyrir neitt sem hún gerir opinberlega,“ segir Una, sem dáðist að móður sinni sem heilbrigðisráðherra í gegnum heimsfaraldur kórónuveirunnar. Snemma í faraldrinum greindist Una með krabbamein í heila og áfram stóð Svandís eins og klettur.
„Ég bara furða mig á þessu sjálf. Mér finnst hún bara svo mikil hetja. Og að hún hafi haldið haus í gegnum allan þennan faraldur. Það var náttúrulega bara bilun,“ segir Una.