Paola Cardenas er barnasálfræðingur, fjölskyldufræðingur og doktorsnemi í sálfræði við HR og hún er auk þess formaður innflytendaráðs. Hún hefur starfað í Barnahúsi sem og hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Rauða krossi Íslands og á barna- og unglingageðdeild Landspítalans.
Paola hefur í samvinnu við Soffíu Elínu Sigurðardóttur, sem einnig er barnasálfræðingur, skrifað þrjár bækur. Í fyrra komu út bækurnar Súper Viðstödd sem er ætlað að kenna börnum um núvitund og hugræna atferlismeðferð og hin bókin var Súper Vitrænn sem á að kenna börnum hugræna atferlismeðferð. Nýjasta bókin heitir Súper Vinalegur og fjallar um feiminn dreng sem á svolítið erfitt með að kynnast nýjum krökkum og finnur fyrir kvíða. „Tilgangur bókarinnar er að kenna hvað er kvíði, hver eru algengustu einkenni kvíða hjá börnum og svo aðferðir til þess að takast á við kvíða í félagslegum aðstæðum.“
Það er svo gott fyrir börn að vita að kvíði er eðlileg tilfinning.
Paola segir allir upplifa kvíða og að kvíði sé eðlileg tilfinning sem allir upplifa á einhverjum tímapunkti í lífinu. „Hann getur hjálpað og jafnvel bjargað lífi okkar þegar við erum í hættu stödd. Vandamálið er þegar kvíðinn er lamandi. Þegar fólk fer að upplifa kvíða stöðugt í sömu aðstæðum þá fer það að hræðast það meira og meira og getur þróað með sér fælni eins og félagsfælni. Það er svo gott fyrir börn að vita að kvíði er eðlileg tilfinning og að það er gott að fara út úr þægindahringnum og prófa það sem þau eru hrædd við en það þarf stundum að hjálpa þeim að stíga fyrstu skrefin.“
Paola segist hafa þurft að takast á við kvíða sem barn og fór henni að líða betur eftir að hún hitti sálfræðing sem kenndi henni leiðir til að takast á við kvíða.
Í skólanum var okkur kennt hvernig við ættum að bregðast við ef það kæmi sprengjuhótun.
Hún er frá Venezuela en ólst upp í nokkur ár í Kólumbíu, frá því hún var sex ára til 13 ára, þar sem faðir hennar, sem er verkfræðingur, vann. „Það var svo mikið ofbeldi í Kólumbíu,“ segir hún og nefnir sprengingar í verslunarmiðstöðvum, þar sem hún fór stundum, og hún talar um myndir í dagblöðum þar sem voru til dæmis myndir af mönnum sem höfðu verið afhöfðaðir. „Besta vinkona mín bjó ásamt fjölskyldu sinni í byggingu þar sem banki var á jarðhæðinni og einn daginn varð sprenging í bankanum og mamma vinkonu minnar missti fóstur í kjölfarið. Í skólanum var okkur kennt hvernig við ættum að bregðast við ef það kæmi sprengjuhótun en ég var í einkaskóla þar sem voru meðal annars börn stjórnmálamanna. Þetta var ofboðslega erfitt og þetta allt var ástæða fyrir því að fjölskyldan ákvað að flytja aftur til Venezuela. Ég var allltaf hrædd og ég upplifði kvíða, streitu og álag. Mér líður óþægilega bara með því að tala um þetta. Ég fann fyrir kvíða sem barn í Kólumbíu og þetta var stundum svolítið erfitt. Ég átti líka erfitt með að aðlagast nýjum aðstæðum og fór til sálfræðings en fyrst var farið með mig til læknis af því að mér var alltaf illt í maganum og var flökurt. Ég hélt það væri eitthvað að mér. En svo var þetta allt í hausnum á mér.“
Stuðningur vina mikilvægur
Árin liðu og Paola stundaði sitt nám og fór síðan 17 ára sem skiptinemi til Bandaríkjana þar sem hún kynntist íslenskum stráki. Hún ákvað svo að koma til Íslands eftir skiptinemaárin og prófa að búa hér í tvö ár. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og síðan fluttu hún til Boston þar sem hún stundaði BSc nám í sálfræði. Paola fluttu svo aftur til Íslands árið 2001 og lauk Cand.psych. nám í sálfræði árið 2007.
Bakgrunnur þeirra er mjög ólíkur bakgrunni barna á Íslandi.
Paola vinnur sem barnasálfræðingur í Barnahúsi og viðurkennir að reynsla sín af kvíða á æskuárunum hjálpi henni að skilja sjólstæðinga sína. „Ég tek til dæmis viðtöl við börn sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Bakgrunnur þeirra er mjög ólíkur bakgrunni barna á Íslandi. Þau hafa upplifað ofboðslega erfiða hluti þannig að þetta eru börn sem eru mjög berskjölduð og þurfa mikið utanumhald. Það er ekki nóg að þau fari inn í kerfið heldur þurfa þau líka aukaþjónustu að mínu mati. Það þarf að meta líðan þeirra og það þarf eitthvað prógramm að vera í gangi fyrir þau því annars muna þau eiga erfitt með að aðagast og vera partur af samféaginu.“
Paola er í doktorsnámi í HR og einblínir í rannsókn sinni á börn og ungmenni sem sótt hafa um hæli á Íslandi. „Það sem hefur komið í ljós er að stuðningur frá vinum er mjög mikilvægur fyrir líðan þeirra. Flest þeirra hafa upplifað áföll og þróað með sér einkenni þunglyndis og áfallastreituröskunar. En stuðningur frá vinum kemur í raun og veru í veg fyrir að þau þrói með sér áfallastreituröskun.“
Paola var fyrr á þessu ári kosin formaður innflytjendaráðs. „Það er til að vera ráðherra til ráðgjafar. Við vorum að auglýsa styrk – Þróunarsjóð innflytjenda – en stofnanir og samtök eru núna að sækja um og er umsóknarfresturinn 1. desember þannig að ég er spennt að fara að skoða allar umsóknirnar. Áherslurnar á þessu ári er að hjálpa ungmennum að aðlagast íslensku samfélagi.“