Á samfélagsmiðlinum TikTok er aðgangur sem ætlaður er til afhjúpunar á íslenskum barnaníðingum. Þar hafa birst tvö myndbönd sem bæði eru tekin af karlmanni sem stendur fyrir utan bifreið og vill ná tali af ökumanni sem situr í kyrrstæðri bifreið. Í myndskeiðunum eru mennirnir nafngreindir, sýndar af þeim myndir, aldur, bílar þeirra og í öðru sjást númeraplötur greinilega. Mennirnir í bifreiðunum eru mættir til að hitta Alexöndru, íslenska stúlku, fædda 2008.
Tálbeita á Snapchat
Í ljós kemur að tálbeita hefur verið notuð og birtast í myndböndunum skjáskot af samskiptum karlmannanna við 13 – 14 ára stúlku. Eins eru birtar ljósmyndir af mönnunum fáklæddum sem þeir hafa sent tálbeitunni. Annar mannanna er á sjötugsaldri, hinn er á fertugsaldri.
Í báðum tilvikum hafa samskipti tálbeitunnar og mannanna átt sér stað á samskiptamiðlinum SnapChat. Augljós er kynferðislegur áhugi mannanna á stúlkunni.
Í myndböndunum viðurkennir ljósmyndarinn fyrir mönnunum að hafa staðið að baki samskipta Alexöndru og tilkynnir jafnframt í öðru myndbandinu að næg gögn séu til staðar til að láta lögregluyfirvöld vita. Í athugasemdum við annað myndskeiðið er spurt hvort atvikið hafi verið tilkynnt til lögreglu. Forsvarsaðili aðgangsins svaraði: „Er búinn að tala við lögreglu, hafa lítinn áhuga á þessu. Dómstóll götunnar þarf bara að sjá um þessi ógeð“
TikTok rauðglóandi
Tveir dagar eru síðan myndskeiðin fóru í birtingu og aðgangurinn fengið tæplega þrjú þúsund fylgjendur. Tæp 63 þúsund hafa séð annað myndskeiðið og hitt fengið tæp 20 þúsund áhorf.
Ekki er vitað hver stendur að baki aðganginum á TikTok eða gerð myndskeiðanna.
Fordæmi eru fyrir afhjúpunum meintra kynferðisbrotamönnum af dómstóli götunnar en slík athæfi eru líklega ólögleg.
Mannlíf hafði upp á öðrum mannanna úr myndskeiðunum, en sá vildi ekki tjá sig um málið.