Sunnudagur 15. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Seinfeld og samfélagsrýnin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á Netflix kennir ýmissa misgrænna grasa þó úrvalið af kvikmyndum sé nú ekki til þess að hrópa húrra yfir á Íslandi. Annað má segja um þáttaúrvalið en magn þátta af allskonar tegundum er nánast yfirþyrmandi. Þar er að finna heilan helling af stórgóðum spennuþáttum, vönduðum heimildarþáttum og drepfyndnum grínþáttum, svo eitthvað sé týnt til.

Ég og dóttir mín höfum haft það fyrir sið þetta árið að horfa á gömlu góðu Seinfeld-þættina á Netflix, þegar við borðum kvöldmatinn saman. Í fyrra voru það hinu súrrealísku Monthy Python´s Flying Circus þættir en nú er það „gáfumannagrínið“ sem einkennir Seinfeld. Og ég get sagt það með vissu að dóttur minni finnst þetta alveg jafn mikil snilld og mér sem segir mér að það er eitthvað meira en lítið gott spunnið í þættina.

Þættirnir, fyrir þá sem búið hafa undir steini síðustu áratugina, fjalla um ekkert eða það er hugmyndin hjá þeim Larry David og Jerry Seinfeld sem skrifuðu þættina. Þar fylgjumst við með lífi vinanna Jerry, Elaine, George og Kramer sem öll eiga það sameiginlegt að vera nokkuð vont fólk og siðlaust, þó þau vilji vel, svona oftast. Aukapersónur þáttanna eru einnig kostulegar margar og sama má segja um foreldra Georgs og Jerry.

En þættirnir eru í raun ekki um ekkert, heldur allt.

Þættirnir eru nefnilega troðfullir af samfélagslegri gagnrýni sem eiga oftast jafn mikið erindi við áhorfendur og þegar þeir voru fyrst sýndir frá 1988 til 1998. Tökum dæmi. Þátturinn „The Outing“ fjallar um það þegar Elaine tekur eftir því að kona er að hlera samtal hennar og Jerry á kaffihúsi og ákveður að ljúga einhverri vitleysu. Segir Elaine þannig að konan heyri vel, að þeir George Constanza og hinn frægi grínisti Jerry Seinfeld eigi í ástarsambandi. Konan reynist blaðakona sem gerir frétt um þetta ástarsamband. Hvergi er minnst á hommafordóma í þættinum en það er gefið sterklega í skyn með vandræðaleik George og Jerry og alltaf þegar þeir segja ekki vera hommar bæta þeir við „Ekki að það sé eitthvað að því!“ og í fyrsta skiptið segjast þeir þekkja marga homma og hinn lygasjúki George bætir við „pabbi minn er hommi!“

Annað dæmi er þátturinn um styttuna af frumbyggjanum. Þar er málefnið kynþáttafordómar en Jerry ákveður að kaupa risastóra styttu af frumbyggja Ameríku og gefa Elaine sem sáttargjöf fyrir eitthvað sem hann hafði gert henni. Fyrir vikið er Jerry sakaður um rasisma. Á sama tíma er hann að deita konu af frumbyggjaættum og missir út úr sér ítrekaðar athugasemdir sem anga af pólitískri ranghugsun. Að setja rasisma inn í grínþátt er afar viðkvæmt en ef það er gert með húmor og til þess fallið að láta áhorfandann hugsa út í eigin hugmyndir um slík málefni, er það ekkert annað en snilld. Seinna í þættinum er George að velta því fyrir sér hvort það væri rétt af sér að spyrja asíska konu í hvaða átt nálægasta kínverska veitingahúsið sé segir Jerry „Já, ég kippi mér ekki upp við það þegar ég er spurður að því í hvaða átt Ísrael er,“ en hann er gyðingur. Undirstrikar Jerry svo afstöðu sína og skilningsleysi varðandi kynþáttafordóma með því að segja „veistu, ég bara næ þessu ekki“ en fjölmargir Ameríkanar eru einmitt eins, þeir ná þessu bara ekki.

- Auglýsing -

Ég gæti farið mun dýpra í Seinfeld þættina en lengdin á þessum pistli bíður ekki upp á það. Ég hvet lesendur til þess að skella þáttunum í gang og njóta, helst með krökkunum því þannig má læra til dæmis hvernig á ekki að bregðast við hinum ýmsu atvikum sem maður lendir í á lífsleiðinni. Og hlæja í leiðinni.

Pistill þessi birtist í nýjasta hefti Mannlífs sem hægt er að lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -