Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Fleiri forsetar Suður-Ameríku styðja málstað Assange: „Það er ekki boðlegt að standa hjá þegjandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson heldur áfram að safna stuðningi fyrir máli Julian Assange, sem situr nú í fangelsi í Bretlandi fyrir að birta viðkvæmar upplýsingar frá bandaríska hernum, á vef sínum Wikileaks.

Kristinn sagði frá því um daginn að bæði forsetar Brasílíu og Kólómbíu hefðu lýst yfir áhyggjum sínu og stuðningi við Assange en ritstjórinn hvíthærði er nú á ferðalagi um Suður-Ameríku ásamt fylgdarfólki í þeim tilgangi að finna samherja. Nú er svo komið að forseti Argentínu hefur bæst í hópinn sem stuðningsmaður Assange og fjölmiðlafrelsis í heiminum.

„Fleiri forsetar á okkar bandi.

Alberto Fernandez, forseti Argentínu, lýsti því yfir á fundi okkar í Buenos Aires í gær að hann teldi blaðamennsku í hættu ef Bandaríkjastjórn léti ekki af fordæmalausri málssókn gegn Assange. Hann ætlaði að stilla saman strengi með öðrum þeim forsetum Rómönsku Ameríku sem við höfum nú átt fundi með, Gustavo Petro í Kólombíu og Lula da Silva í Brasilíu. Við hittum einnig Christinu Fernández de Kirschner (CFK) varaforseta Argentínu (og fyrrverandi forseta) sem staðfesti sinn stuðning.
Forsetaparið er merkileg eining í pólitískri sögu Argentínu. Síðar í dag fellur dómur í undirrétti í málssókn gegn CFK vegna ásakana um spillingu. Flestum ber saman um að hún verði sakfelld. Sumir sem telja hana seka um einhvern hluta ásakananna telja þó samt að pólitískur blær sé á allri málssókninni og sannanir ákæruvaldsins ákaflega þunnar. Hún getur áfrýjað.
Ótvíræður stuðningur pólitískrar forystu Argentínu er mikilvæg viðbót. Fernandez forseti, var sérlega áhugasamur um lagalegar hliðar málsins gegn Julian, enda fyrrverandi lagaprófessor og lyfti brúnum iðulega yfir ótrúlegum (en sönnum) sögum um réttarbrotin gegn honum, yfirgang Bandaríkjastjórnar og snúninga Breska stjórnkerfisins til að þóknast heimsveldinu.
Kjölfesturríki heillar heimsálfu styðja nú málstaðinn. Ef það dugir ekki til að breyta kúrs Bandaríkjastjórnar verða pólitískir leiðtogar Evrópu að taka málið upp. Það er ekki boðlegt að standa hjá þegjandi þegar gróft mannréttindabrot er framið og versta ógn gegn fjölmiðlafrelsi Vesturlanda blasir við.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -