Brynjar Níelsson lætur gamminn geysa varðandi rekstur Reykjavíkurborgar, og segir:
„Nú eru menn loksins að átta sig á að óráðsía hefur verið lengi í rekstri borgarinnar. Borgarbúar munu finna verulega fyrir því næstu árin, því óráðsía er stundargaman og jafnan hluti af lýðskrumi og kemur alltaf í bakið á okkur á endanum,“ segir ákveðinn Brynjar pg bætir við:
„Gömlu R lista flokkarnir hafa verið svo uppteknir af því að halda Sjálfstæðisflokknum frá stjórn borgarinnar að þeim hefur tekist að finna nýjar hækjur eftir hverjar kosningar til að halda völdum og taka þátt í þessu stundargamni. Það verður að teljast talsvert afrek að geta safnað skuldum á sama tíma og tekjur hafi aukist til muna. Og ekki er það síður afrek að auka útgjöld verulega án þess að nokkur verði var við betri þjónustu eða aukin gæði. Frekar að þessi auknu útgjöld fari í það að gera borgarbúum erfiðara fyrir og skapa leiðindi. Ekki ólíkir RÚV að þessu leyti.“
Hann segir að „stjórnmálamönnum mörgum virðist fyrirmunað að standa í lappirnar þegar kemur að útgjaldakröfum. Síðast gerðist það með afgerandi hætti þegar fjármálaráðherra og meirihluti þingsins ákvað að stöðuleikaframlagið frá slitabúunum færi í að greiða niður skuldir í stað þess að láta undan útgjaldakröfum stjórnarandstöðunnar. Meirihlutinn í borginni hagar sér eins og átfíkill á hlaðborði. En óráðsía stjórnmálamanna verður ekki löguð með magaermisaðgerð.“
Brynjar vill að Reykjavíkurborg taki almennilega til hjá sér:
„Í stað þess að taka á rekstrinum og haga seglum eftir vindi eru skuldir auknar og skattar hækkaðir sem og gjöld. Við viljum helst að komandi kynslóðir greiði fyrir gæði og vellíðan okkar. Held að ungt fólk ætti að stíga niður fæti og setja þessa stjórnmálamenn í skammarkrókinn. Með verulegri verðbólgu á mannréttindahugtakinu hefur útgjaldaþörfin aukist. Nú eru það beinlínis mannréttindi að hvaða útlendingur sem er eigi rétt á framfærslu frá skattgreiðendum og aðgang að almannatryggingarkerfinu svo lengi sem þeir kjósi og einnig þótt þeir séu ólöglega í landinu. Fatlaðir eigi rétt á þjónustu allan sólarhringinn heima hjá sér. Öll heilbrigðisþjónusta og menntun á að vera gjaldfrí, leikskólar og matur í skólum ókeypis og svo framvegis.“
Segir að endingu:
„Toppurinn í allri þessari vitleysu er málshöfðun Gráa hersins, sem telur það mannréttindi að fá fulla greiðslu úr almannatryggingakerfinu óháð öðrum tekjum. Mér skilst að hann ætli að láta á það reyna hvort Mannréttindadómstóll Evrópu sé ekki tilbúinn að taka yfir fjárveitingavaldið á Íslandi. Mér sýnist að öll þessi nútíma mannréttindaákvæði og hinir og þessir mannréttindasáttmálar og viðaukar sem við skrifum undir í gríð og erg munu keyra vestræn lýðræðisríki í þrot. Allavega safna þau skuldum sem aldrei fyrr. Ef ekki er gripið í taumana núna munum við enda í djúpri og langvarandi kreppu. Þá munu öll mannréttindi gleymast.“