Bæjarráð Grindavíkurbæjar hefur ákveðið að fara ekki eftir ályktun frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar um að skipta út gervigrasi Hópsins, fjölnota íþróttahús þar í bæ heldur laga það sem nú þegar er þar.
Víkurfréttir segir frá málinu en fram kom í frétt miðilsins þann 21. október síðastliðinn um slæmt ástand gervigrass Hópsins. Þá hafði frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar ályktað svo að skipta ætti út gervigrasinu. Fulltrúar meirihlutans í nefndinni tóku undir þá ályktun. Nú hefur bæjarráð hins vegar tekið þá ákvörðun að betra sé að laga núverandi gervigras og fara því ekki eftir tillögu frístunda- og menningarnefnd.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs málið vera „einfalt reikningsdæmi.“ „Í mínum huga er þetta nokkuð einfalt reikningsdæmi. Viðgerð á núverandi gervigrasi mun kosta u.þ.b. tvær milljónir og ætti gervigrasið þannig að endast í tvö ár, á meðan kostnaður við að leggja nýtt er um 50–60 milljónir og endast í átta til tíu ár, þar fyrir utan er rekstrarkostnaður við nýtt gervigras mun hærri. Vinna við deiliskipulag stendur ennþá yfir og inni í því er nýr gervigrasvöllur. Við teljum rétt að halda að okkur höndum og fara þessa leið á meðan ekki er vitað hvenær ráðist verður í gerð nýs gervigrasvallar. Það eru ýmsar aðrar framkvæmdir í gangi og framundan, þess vegna ákváðum við að gera þetta svona.“
Deiliskipulag á að ljúka fljótlega á næsta ári en þá mun Grindavíkurbær kynna þær framkvæmdir sem ráðast á í og hvenær það verður gert.