Ráðgjafahópur sem rannsakaði nafnbirtinu meintra kynferðisofbeldismanna á speglum MH hefur komist að niðurstöðu. Segir hann hluta ásakana lygi.
Í byrjun október á þessu ári var sagt frá skilaboðum sem birtust á salernirspeglum Menntaskólans við Hamrahlíð og á blaði sem hengt var upp á vegg skólans þar sem nöfn nokkurra drengja sem stunduðu nám við skólans voru skrifuð og þeir tengdir við kynferðisbrot. Þar stóð meðal annars „Ég vil ekki fokkings nauðgara í skólanum mínum.“ Þá var á öðrum stað drengur sakaður um að hafa nauðgað litlu frænku sinni.
Sjá einnig: „Ætla ekki að vera í sama skóla og strákur sem er kærður um að hafa nauðgað litlu frænku sinni“
Stjórn MH réði til sín ráðgjafahóp sem fara átti í saumarnar á málinu og ásakanirnar. Niðurstaða þessa hóps er nú komin fram.
Á heimasíðu MH birtist í morgun færsla þar sem farið er yfir niðurstöðu ráðgjafahópsins. Þar segir meðal annars: „Meðferð málanna hjá ráðgjafahópnum er nú lokið eða á lokametrunum. Við ítarlega skoðun hjá ráðgjafahópnum komu í sumum tilvikum engar skýringar eða upplýsingar fram um ástæðu þess að nöfn nemenda voru rituð á speglana eða þau með öðrum hætti tengd umfjölluninni. Í þeim tilvikum bárust heldur engar kvartanir yfir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi viðkomandi nemenda. Sem dæmi má nefna að sú saga að í skólanum sé tiltekinn nemandi sem hafi nauðgað litlu frænku sinni, hefur ekki fengið neina stoð þrátt fyrir ítarlega könnun ráðgjafahópsins. Fór sú saga fyrst á flug þegar nemandinn stundaði nám í öðrum skóla og endurtók sig í MH.“
Kemur fram á heimasíðu skólans að niðurstaða hópsins í þeim málum sem tilkynnt voru sé sú að nemendur hafi orðið fyrir einelti og útilokun eftir að nöfn þeirra birtust í tengslum við meint kynferðisbrot.
„Niðurstaða ráðgjafahópsins í þeim málum sem tilkynnt voru var sú að nemendur hafi orðið fyrir einelti og útilokun við það að nöfn komu fram með áðurgreindum hætti eða nöfn þeirra tengd umfjölluninni. Nafnritunin fór í mikla dreifingu innan og utan skólans.“
Í lokaorðum sínum ítrekar skólinn að hann standi með öllum þolendum ofbeldis og eineltis.
„MH ítrekar að í kjölfar þessara mála samþykkti skólinn að verða fyrstur til að innleiða nýjar áætlanir, í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema, sem snerta hvoru tveggja kynferðislega áreitni og ofbeldi sem og einelti. Stendur sú vinna yfir. Eru nemendur hvattir til að nýta þá ferla sem til staðar eru og tilkynna um mál ef upp koma innan skólans, þ.e. með því að leita til starfsfólks MH eða tilkynna í gegnum tilkynningahnapp á heimasíðu skólans. Skólinn ítrekar að hann stendur með öllum þolendum ofbeldis og eineltis, sama af hvaða toga slík mál kunna að vera.“