Stjórnendur Ölmu leigufélags hafa verið gagnrýndir afar mikið í vikunni fyrir hækkanir á leiguverði; hækkanir sem geta numið tugum þúsunda.
Hafa bæði ráðherrar sem og þingmenn stjórnarandstöðu sagt boðaðar hækkanir óforsvaranlegar með öllu.
Í yfirlýsingu frá stjórnendum Ölmu segir að félagið sé nauðbeygt til að hækka leiguverðið, en þeir hafa þó af einhverjum ástæðum ekki viljað veita viðtöl vegna málsins, en þetta kemur fram á ruv.is.
Leigufélagið Alma á og rekur rúmlega þúsund íbúðir víðs vegar um landið.
Þingmaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, segir það hafa verið hluta af Lífskjarasamningunum að koma á fót kerfi sem kæmi í veg fyrir verulega miklar hækkanir á leiguverði á skömmum tíma; hún segir þetta hafi ekki verið gert:
„Það að forsætisráðherra sé núna að skoða leiguþak, gott og vel, en hvers vegna var hún ekki búin að setja á þessa leigubremsu sem hún lofaði,“ segir Þórhildur Sunna.
Þá hugnast þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Dilja Mist Einarsdóttur, ekki leiguþak:
„Vandamálið á húsnæðismarkaðnum er auðvitað skortur á húsnæði, það er það sem þrýstir upp leiguverðinu og gerir það að verkum að það er hægt að koma svona fram. Svo verður fólk auðvitað að eiga það við sig, hvort það sé siðferðislega réttlætanlegt og mér heyrist allir vera sammála um að það sé það ekki,“ sagði Dilja Mist.