Kona á sextugsaldri, hjúkrunarfræðingur á geðdeild 33C á Landspítalanum, hefur verið ákærð fyrir manndráp og brot í opinberu starfi. Héraðssaksóknari gaf út ákæruna og er hjúkrunarfræðingnum gefið að sök að hafa drepið sjúkling deildarinnar, konu á sextugsaldri.
RÚV greindi frá en atvikið átti sér stað í ágúst í fyrra. Samkvæmt ákærunni er hjúkrunarfræðingurinn grunaður um að hafa þvingað næringarvökva ofan í sjúklinginn með þeim afleiðingum að vökvinn barst í lungu sjúklingsins, sem kafnaði.
Rannsókn málsins verið umfangsmikil og yfir 20 vitni hafa verið yfirheyrð. Konan hefur ekki starfað á spítalanum síðan málið kom upp.