Reiði braust út á meðal foreldra tíundubekkinga í Brekkuskóla þegar ellefu nemendur voru sendir heim úr skólaferðalagi. Árgangurinn fór í ferð til Danmerkur en þar fór allt úr böndunum, fljótt komst upp að mikil drykkja væri á meðal unglingana og var þá tekin ákvörðun um að senda hluta hópsins heim til Íslands. Ferðin var hluti af svokölluðu vinaverkefni en nokkrum mánuðum áður höfðu danskir nemendur komið til Íslands.
Foreldrar umræddra barna urðu margir reiðir yfir þessari ákvörðun skólans, þó öllum forráðamönnum hafi verið skylt að skrifa undir samning þess efnis að börn yrðu skilyrðislaust send heim ef reglum yrði ekki fylgt. „Okkur er ekki einu sinni sýnd sú lágmarksvirðing að halda fund með okkur áður tilkynnt var að ákveðið væri að bömin skyldu send heim,“ sagði eitt foreldranna í samtali við DV árið 2001.
25 nemendur urðu eftir í Danmörku og sögðust foreldrar barnanna vera sérstaklega ósátt með þá ákvörðun að aðskilja hópinn. Sögðu foreldrarnir einnig að þeir höfðu fengið lítinn umhugsunarfrest áður en skila þyrfti skjalinu, annars yrði börnum þeirra gert að sitja eftir heima. Börnin voru send heim á kostnað foreldra, eins og tekið var skýrt fram í samningnum.
Nemendurnir ellefu, viðurkenndu að hafa neytt áfengis í ferðinni þegar hópnum var öllum safnað saman í íþróttahúsi í Danmörku. Þeir nemendur sem ekki hefðu neitt áfengis í ferðinni, voru beðnir um að fara úr salnum og sátu þá þeir ellefu eftir sem sendir voru heim.
„Þetta er sú aðferð sem notuð er í öllum skólaferðalögum – ef nemendur brjóta af sér eru þeir sendir heim. Þetta var það sem allir foreldrar voru búnir að skrifa undir að yrði gert. Um það var skýrt samkomulag í foreldrahópnum. En þegar þeir stóðu frammi fyrir því að þetta yrði framkvæmt fannst þeim aðgerðin harkaleg,“ sagði Björn Þorleifsson, þáverandi skólastjóri Brekkuskóla. Hann segir að þegar fleiri brot á reglum komu upp, væri ekki komist hjá því að senda nemendurna heim. Foreldrar stóðu fastir á sínu og sögðu skólann hafa staðið illa að málinu, það hafi verið betri leiðir til að leysa þetta en sú að senda börnin heim.