Ásgeir Ebenser Þórðarson, eldri borgari, upplifði sára reynslu að morgni 26. apríl síðastliðnum. Hann hafði ekið bifreið sinni niður Laugaveg til móts við Gilbert úrsmið. Hann heyrði þá einskonar blísturshljóð ofar í götunni, og sá fyrir aftan bifreiðina ungan mann á rafhlaupahjóli.
Í því að Ásgeir stöðvaði bifreiðina hafði ungi maðurinn kýlt í hliðarspegil bílsins og látið fúkyrðin flæða. Hann varð hræddur við unga manninn sem ók hjólinu fram fyrir bílinn og á stöpul og datt af hjólinu á gangstéttina. Ásgeir reyndi að koma sér af svæðinu en ungi maðurinn elti hann uppi með fjandsamlegum orðaflaumi og fokkmerkjum. „Ég var í mjög miklu uppnámi, þetta var harkaleg árás á mig,“ segir Ásgeir í viðtali við Fréttablaðið.
Hjólamaður kærður
Ungi maðurinn kærði Ásgeir og segir hann hafa ekið í veg fyrir sig og með því valdið fallinu og áverkum mannsins og því að hann braut hjálminn sinn. Þar sem frásögnum Ásgeirs og mannsins bar ekki saman felldi lögreglan málið niður.
Þrátt fyrir misræmið og niðurfellingu málsins hjá lögreglu situr Ásgeir nú, hálfu ári síðar, eftir með tæplega 35 þúsund króna hækkun á bifreiðatryggingunni sinni hjá Sjóvá. Þetta er honum þungbært.
„Þetta mál hefur valdið mér svefnleysi. Ég er að bíða eftir uppskurði vegna krabbameins og fæ þá þetta í fangið,“ segir Ásgeir.
„Tryggingafélagið er enn ekki búið að draga hækkun gjaldanna til baka en ég hef sagt við Sjóvá: Ef þið ætlið að greiða þessum manni bætur fyrir einbeittan brotavilja hans að svíkja út fé með hjálp lögmanna þá er viðbúið að ógæfumenn sem þurfa að eiga fyrir næsta skammti fari að stunda svona starfsemi og það blossi upp faraldur,“ segir Ásgeir og vill þar með meina að ungi maðurinn hafi náð að sannfæra lögmenn Sjóvá og þeir tekið málið einhliða upp. Fór því Ásgeir sjálfur á stúfana og fann vitni sem staðfestir frásögn hans.
Tryggingarfélagið Sjóvá lítur svo á að um ágreining sé að ræða vegna umferðaróhapps og vill ekki ræða einstök mál. Þá segir jafnframt í fréttinni: „Viðbótargögn, yfirlýsing nýs vitnis í málinu, eru þó til skoðunar hjá Sjóvá samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.