Það vakti mikla athygli nýverið þegar Aron Pálmarsson handboltamaður ákvað að hætta í atvinnumennsku og halda heim áleið í FH.
Aron er einn besti og sigursælasti handboltamaður Íslands frá upphafi og er enn einn sá besti í heiminum, og rétt kominn yfir þrítugt.
Ástæðan fyrir því að Aron hélt heim á leið er sú að hann vill vera meira með dóttur sinni, sem hann á með leikkonunni Ágústu Evu Erlendsdóttur.
Aron skrifaði í færslu á samfélagsmiðlum að árin sín í atvinnumennsku hefðu verið frábær og gefið honum mikið:
„Ég hef unnið allt sem hægt er að vinna og fengið að upplifa augnablik og aðstæður sem ég mun aldrei gleyma. Ég hef spilað með bestu leikmönnum veraldar og stærstu klúbbum heims. Fyrir það er ég gríðarlega þakklátur. Ég hef verið atvinnumaður tæplega helming ævi minnar. Dóttir mín er að hefja skólagöngu og ég hlakka til að verja meiri tíma með henni. Ég finn að þetta er rétti tímapunkturinn fyrir mig að koma heim þar sem ræturnar liggja. Ég ætla að halda áfram á þeirri braut sem ég hef verið á, bara heima á Íslandi. Nú eru ótrúlega spennandi tímar fram undan með landsliðinu og ég hlakka mikið til að leiða liðið á HM í janúar sem fyrirliði.“