Föstudagur 22. nóvember, 2024
-1.6 C
Reykjavik

Gunnar Smári er sammála Agnesi: „Held að við mættum alveg ræða meira um hann blessaðan“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Smári segir ekkert skrítið að biskupinn vilji tala meira um Guð.

Sósíalistaforkólfurinn Gunnar Smári Egilsson skrifaði afar djúpa hugvekju á Facebook-vegg sinn í dag. Þar fer hann á dýptina yfir Guð og heiminn í dag, samfélagið og forfeðradýrkun svo eittvað sé nefnt.

Hér má sjá hugvekjuna í heild sinni:

„Þurfum við að tala um Guð?

Ég myndi aldrei orða það svo að það væri þöggun um Guð í samfélaginu, en ég held að við mættum alveg ræða meira um hann blessaðan og það sem honum tilheyrir. Þegar ég var settur yfir unglingablaðið Fókus á síðustu öld, harðfullorðinn maðurinn, benti ég ungum blaðamönnum á gamla ráðleggingu sem mér var einhvern tímann sagt að Árni Þórarinsson hefði gefið óreyndu fólki á leið í viðtöl, að spyrja fólk um kynlíf, áfengi og trúarbrögð. Það brást sjaldan að það voru svörin um trú sem voru áhugaverðustu kaflarnir í viðtölunum. Þar var helst eitthvað óvænt, nýtt og sérstakt, eitthvað sem viðmælandanum fannst mikilvægt. Ef ég man rétt suðum við þetta niður og buðum upp á örviðtöl þar sem aðeins var spurt um þetta þrennt.

Ég er ekki heittrúaður en mér hefur alltaf fundist ég þurfa að skilja á einhvern hátt frásagnir af samvistum mannsins við guð sinn, að í þeim væri stærsti hlutinn af því sem mannskepnan hefði hugsað um stöðu sína í heiminum. Sem er náttúrlega illviðráðanleg spurning sem best er að svara með sögum, líkingum eða söng. Um hvað við séum eiginlega að gera hér, tilhvers sé ætlast af okkur og hvernig við getum fundið innri frið og sátt, þakklæti fyrir það við höfum en viðhaldið líka von um meira réttlæti, mannúð og frið á þessu heimili sem við eigum saman.

Og ég hef notað Guð eins og hvert annað áhald, til að flytja til egóið svo það þurfi ekki að vera miðja alls. Ég kann ekki betri aðferð til þess. Það fylgir tilvist okkar að vera miðja heimsins. Það er úr okkur sjálfum sem við sjáum allt og skynjum. Og þá skiljum heiminn eðlilega með okkur í miðjunni. Sem er náttúrlega klikkað sjónarhorn og skekkt. Til að varna þessu, eða alla vega vega upp á móti, er snjallt að koma sér upp Guði hið innra svo við þurfum ekki sjálf að sitja þarna í miðjunni og heimskast af upphafningu og ofmetnu mikilvægi.

Forfeðradýrkun er líka snjallt áhald til að minna okkur á að flest sem við eigum og njótum var búið til og viðhaldið af öðru fólki, gengnu fólki. Það dregur bit úr egóinu að minna sig á slíkt. En það er líka menningarleg viðhalds- og verndarstefna. Minnir okkur á að fara vel með það sem er, að okkar hlutverk sé að koma sköpunarverki genginna kynslóða (nú, eða guðs) til skila til næstu kynslóðar ekki í lakara standi en við erfðum það.

Við lifum endalok sögunnar eins og Fukuyama benti á, þótt hann hafi kannski misskilið sýn sína. Þegar Guð hafði legið dauður um langa hríð reis upp tími uppblásinnar einstaklingshyggju þar sem egóið var í hásætinu og miðjunni og samfélagið leysist upp og varð að engu öðru en safnhaug af einstaklingum, mikilfenglegum og alvöldum, og þá hvarf sagan. Enda hefur manneskja sem ekkert sér nema sjálfa sig ekkert að gera við sögu, samfélag eða Guð. Hver hugsun hennar eða löngun er upphaf alls, hið heila markmið að elta þetta.

Við lifum mikla upplausnartíma. Þess vegna er stöðugleikinn söluvara. Það er hundablístur til þeirra sem vilja verja stöðu sína. Hin fátæku og forsmáðu biðja ekki um stöðugleika. Og stöðugleikinn sem er seldur er í reynd áframhaldandi niðurbrot þess samfélags sem byggðist upp af kröfum skipulagðra alþýðuhreyfinga á síðustu öld, bæði innviða, grunnkerfa og þeirrar lýðræðisvirkni sem gat fleytt kröfum hinna eignalausu og fátæku áfram.
Og til að halda áfram niðurbrotinu þurfa þau sem auðgast á því og draga til sín völdin að halda aftur af umræðu um samfélag og sögu. Og um guð, ef guð er móteitur gegn uppblásinni einstaklingshyggju. Og besta leiðin til að ræða eitthvað alls ekki er að sveipa það helgiljóma svo það hefjist upp yfir okkur öll, að sagan, samfélagið og guð séu ekki eldhúsáhöld til að beita gegn vanda heldur eitthvað ósegjandlegt, óumræðanlegt og óendanlega innantómt í upphafningu sinni. Eins og við erum orðin sjálf.

Við erum þar. Standandi frammi fyrir vanda sem er í grunninn andlegur. Þegar við höfum misst sjónar af stöðu okkar í heiminum og sögunni, ábyrgð okkar á samfélaginu og til hvers við getum notað góðan guð. Og þá er akkúrat ekkert skrítið við að biskup telji að það myndi bæta samfélag okkar ef við æfðum okkur að tala um guð og andleg mál. Sú sem er kristin eða iðkar aðra trú hlýtur að telja það bestu leiðina til að lækna hin andlegu mein.
Svo er annað fólk öðruvísi saman sett, með rökvísi sem botn í sinni sál á meðan aðrir eru byggðir upp frá félagslegum tengslum og tilfinningum. En það er æði stór hópur sem funkerar ekki nema finna einhvern andlegan þráð. Það má ekki bara sjá af andlegri iðkun heldur hvernig allt hneigist til að taka á sig mynd trúar og trúarbragða. Það á ekki síst við um vísindi og skipulagða þekkingarsöfnun, sem gera kröfu um heilagleika og óskeikulleika, búa til sínar eigin heilagra manna sögur og ritúöl og vilja fordæma þau sem ekki falla fram og tilbiðja þau.

Og það sama á við um hugmyndastefnur í samtímanum, hvort sem það er femínismi eða nýfrjálshyggja, sósíalismi eða íhaldssemi. Trúariðkun hefur verið svo afgerandi farvegir í gegnum aldirnar að allt sem við gerum og hugsum tekur á einhvern hátt mið af því. Hillur með fæðubótarefnum út í kjörbúð eru sem altari þar sem hægt er að sækja sér endurnýjun og losna undan synd, ekki með líkama Krists heldur því sem hefur tekið yfir hlutverk hans.
En hvað um það. Þessi með andlega botninn í sinni sál telur að besta leiðin til að bæta heiminn, til að finna merkingu í upplausninni, sé að tala um Guð. En hún lifir í samfélagi sem hrópar niður slíkar uppástungur, eins og svo sem flest annað. Við erum föst í deilu um dagskrá og fundarstjórn forseta, um hvað megi tala um og hvað ekki. Komumst aldrei að því að ræða neitt sem er áhugavert.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -