Haraldur Þorleifsson er 45 ára hönnuður og stofnandi stafræna hönnunarfyrirtækisins Ueno; hann var valinn Manneskja ársins að mati lesenda Smartlandsins.
Frægt er orðið þegar Haraldur seldi fyrirtæki sitt til Twitter; greindi Haraldur þá frá því að hann myndi borga alla skatta á Íslandi; hann vill vera skattakóngur – en náði þó ekki fyrsta sætinu núna; varð númer tvö.
Allt árið 2022 hefur Haraldur stutt dyggilega við þá sem minna mega sín; vinnur hörðum höndum að því að rampa upp Ísland; bæta aðgengi fyrir fatlaða.
Haraldur er spurður hvernig honum finnist að vera valin Manneskja ársins:
„Mér líður mjög vel með það. Þetta er svolítið skrýtið. Ég er að venjast þessu. Það er búið að vera mjög mikið að gerast hjá mér. Í vinnunni hefur verið alls konar drama, en ég er að vinna hjá Twitter. Það er búið að vera mjög opinbert drama. Síðan höfum við verið í alls konar framkvæmdum hérna heima, og svo höfum við verið að opna kaffihús og verið í framkvæmdum tengdum því. Þetta er búið að vera viðburðaríkt og gott ár,“ segir Haraldur og á við kaffihúsið Önnu Jónu, sem hann hyggst opna í ársbyrjun 2023; heitir kaffihúsið í höfuðið á móður hans, Önnu Jónu Jónsdóttur, en hun lést í bílslysi árið 1988, en þá var Haraldur einungis 11 ára gamall.
Hann er spurður um hápunkt ársins – hann segir það að spila á Iceland Airwaves hafa verið ógleymanlegt:
„Ég var búinn að hugsa um það mjög lengi. Það var mjög skrýtið því ég hef ekki spilað sjálfur á sviði í 20 ár. Það var alveg frábært,“ segir hann, en Haraldur semur tónlist undir listamannsnafninu Önnu Jónu Son.
Haraldar glímir við vöðvarýrnunarsjúkdóm:
„Ég var greindur þegar ég var svo ungur. Ég var bara tveggja ára. Þannig að ég hef einhvern veginn aldrei verið meðvitaður um að ég væri ekki með sjúkdóm. Það er kannski öðruvísi áfall að fá aldrei áfallið. Það er aldrei rétti tíminn til að fara í eitthvert sorgarferli. Oft hjá fólki sem lendir í slysi eða eitthvað þannig þá fer sorgarferli strax í gang. Þegar fólk fæðist með eitthvað svona eða er í þessum aðstæðum frá byrjun fer það aldrei í gegnum sama ferlið,“ segir Haraldur og bætir við að hann sé í afneitun með sinn sjúkdóm, en hann mælir ekki með því, en segir þó afneitunina hafa kallað fram góða hluti líka:
„Ég ætla nú ekki að fara að mæla með því að fara í afneitun. Það hefur gert ýmislegt fyrir mig sem ég hefði annars ekki gert ef ég væri að hugsa meira um sjúkdóminn. Ég flutti til New York þegar ég var 26 ára. Hef ferðast um allan heiminn. Það fer rosalega lítill tími hjá mér í að hugsa um að ég sé með þennan sjúkdóm,“ segir Haraldur að endingu.