Mikil hækkun hefur orðið á verði á rakettum. Stærsti seljandi flugelda er Slysavarnarfélagið Landsbjörg, og segir Gísli S. Þráinsson, sem á sæti í flugeldanefnd félagsins, að fluttir voru inn eitthvað um tuttugu gámar af flugeldum fyrir þessi áramót; verður félagið með nálægt hundrað sölustaði.
Gísli segir í samtali við ruv.is flugeldasöluna vera stærstu fjáröflunarleið félagsins; stærri en aðrar leiðir sem félagið notar til samans.
Meiri umræða hefur verið undanfarin ár hér á landi varðandi umhverfisspjöll sem fylgja flugeldunum:
„Við verðum náttúrlega mikið vör við umræðuna og drögum svo sem ekkert úr því. Salan hefur verið svipuð síðustu árin, við finnum svo sem ekki fyrir einhverjum svaka samdrætti,“ sagði Gísli sem hvetur fólk til að nota einungis gamlársdag til að skjóta upp flugeldum, ekki dagana þangað til; það dragi úr mengun og valdi ekki eins miklum truflunum, en langvarandi skothríð hjálpi ekki málsstað björgunarsveitanna.
Og verðið á flugeldum hækkar:
„Já, það er nú aðeins, hún er á bilinu einhvers staðar í kringum 15% sem við þurfum að hækka verðið.“
Segir Gísli hækkunina megi rekja til hærra gengis bandaríkjadals sem og verðbólgu í Kína, þaðan sem flugeldarnir koma.