Nú er gleði áramótanna framundan. Margir slá upp áramótaveislu þar sem fjölskyldan kemur saman og gleðst yfir mat og drykk. Algengt er að humar verði fyrir valinu í forrétt en hann er hægt að elda á marga vegu. En hvað er í boði í verslunum þegar velja á humar. Mannlíf fór á stúfana og kannaði framboðið.
Mjög algeng stærð í forrétti eru 20 gr humarhalar. Ódýrastir eru þeir í Hagkaup á 5699 krónur kílóað en dýrastir hjá fiskbúðinni Hafberg á 9900 krónur. Í Krónunni eru þeir á 6998 krónur, í Bónus á 7498 krónur og hjá Fiskikónginum 8000 krónur.
Hjá Nettó er hægt að fá 25-36 gr humarhala á 7579 krónur og skelbrot á 6305 krónur.
Ef þú vilt hafa þetta einfalt þá er hægt að fá skelflettan humar víða. Til dæmis kostar kílóið hjá Fiskbúðinni Hafberg 7800 krónur, hjá Krónunni 6469 krónur og hjá Nettó og Heimkaup 6874 krónur.
En ef þú vilt gera vel við þig og kaupa stóran humar þá býður Fiskbúðin Hafberg upp á stærð 13/15 á 15900 krónur og Fiskikóngurinn er með 25 gramma hala á 16900 krónur og 50 gramma halar á 30000 krónur.
Blaðamaður hefur borðað humar í forrétt síðustu 30 ár og þá hefur alltaf sama uppskriftin orðið fyrir valinu. Mjög einföld og einstaklega góð. Humarhalar eru brúnaðir í smjöri á pönnu og saltaðir örlítið. Síðan eru humarhalarnir teknir til hliðar og rjómi, fiskikraftur og rósapipar soðið upp á pönnunni og þykkt eftir smekk. Humarinn er síðan borinn fram með rósapiparsósunni og ristuðu franskbrauði.
Humar er ekki veiddur við Íslandsstrendur um þessar mundir. Mest af honum kemur frá Danmörku og eins eitthvað frá Englandi og Skotlandi. En það kemur ekki að sök, þetta er nákvæmlega sami stofn og við íslendingar höfum veitt.
Það skal tekið fram að þetta er ekki tæmandi könnun á humarverði og ekki er tekið tillit til gæða og þess hvar humarinn er veiddur.