Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans og sérfræðingur í lyflækningum og nýrnalækningum segir ekki hægt að búa við ástandið eins og það er nú á bráðamóttöku langt fram eftir komandi ári.
Komið hefur fram að leggja þurfti um 200 sjúklinga inn á Landspítala af bráðamóttöku fyrir jólin; metfjöldi en því miður voru öll rúm fullskipuð fyrir.
Samtals þurfti að leggja inn 188 sjúklinga sem leituðu á bráðamóttöku dagana 24. til 27. desember, en á spítalanum eru ekki nema 280 legurými sem voru öll þegar full.
Var bætt við tólf rúma legudeild í gær; náðist að fá starfsfólk sem flest var sótt á aðrar deildir spítalans.
„Það var mikið um alvarleg veikindi sem gerði stöðuna mjög íþyngjandi á bráðamóttökunni. Og sérstaklega þegar það skortur var á legurýmum og fólk ílengdist þarna til lengri tíma,“ segir Runólfur í samtali við ruv.is.
Legurýmaskortur er ekki nýr af nálinni; ástandið hefur verið viðvarandi að minnsta kosti síðan um aldamótin. Þá er útskriftarvandinn af sjúkrahúsinu ekki heldur nýr; þar liggja inni aldraðir sem lokið hafa meðferð en er ekki hægt að senda í önnur úrræði.
Runólfur segir að „heilbrigðisyfirvöld eru að vinna markvisst að þessu núna. Og ég bind ákveðnar vonir við það. En það sem að hefur haldið okkur á floti og sannarlega gerði það þessa erfiðu daga er okkar öfluga starfsfólk.“
Fleira starfsfólk vantar á spítalann. Margir hafa hætt af völdum afar mikils álags í heimsfaraldrinum.
„Þess vegna þurfum við að finna aðra lausn að minnsta kosti tímabundið. Og það beinist að því að finna einhvers konar biðrými eða skapa sveigjanleg rými fyrir aldraða sem ekki geta verið heima en eru ekki komnir með rými á hjúkrunarheimili. Þannig að þeir geti vistast þar um ákveðinn tíma; við reynum allt hvað við getum til þess að koma hlutunum í betra horf en það tekur einhvern tíma í viðbót. Það má bara ekki gerast að við búum við þetta sama ástand langt fram eftir næsta ári,“ segir Runólfur Pálsson