Fréttablaðið verður ekki lengur borið heim til fólks eins og verið hefur frá því það var stofnað eftir aldamótin. Þessi stórtíðindi voru boðuð á vef blaðsins í morgun. Lúgudreifingu verður þegar í stað hætt og blaðinu þess í stað dreift á 120 sölustöðum, víða um land. Ástaðæða breytinganna mun vera óánægja með samstarfið við Póstdreifingu, sem er að meirihluta í eigu útgáfu Morgunblaðsins. Fréttablaðið verður með sitt eigið fólk í að dreifa blaðinu á útsölustaði. Ákvörðunin um að slíta viðskiptunum er reiðarslag fyrir dreifingarfyrirtækið en sparar Torgi, útgáfu Fréttablaðsins milljarð króna á ári.
„Fram til þessa hefur Fréttablaðinu verið dreift inn á heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en því verður nú hætt. Blaðið verður þess í stað aðgengilegt á yfir 120 fjölförnum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, Árborg, Ölfusi, Akranesi, Borgarnesi, Akureyri og víðar. Áfram verður unnið að frekari dreifingu blaðsins. Þá hefur sá fjöldi sem les blaðið daglega á rafrænu formi, ýmist í appi eða á pdf-formi, vaxið jafnt og þétt. Ekki er búist við að breytt dreifing muni hafa teljandi áhrif á lestur blaðsins,“ segir á vef Fréttablaðsins.
„Ástæða þessarar breytingar er margþætt. Í fyrsta lagi höfum við hjá Torgi haft vaxandi áhyggjur af því að dreifing blaðsins væri ekki í samræmi við þau markmið sem við höfum gengið út frá og að dreifingarferlinu fylgdi óþarfa sóun. Það er í takti við vaxandi umhverfisvitund að lágmarka kolefnisspor í okkar starfsemi. Við bætist svo að dreifing blaðs til tugþúsunda heimila er óhemju kostnaðarsöm og reikna má með að kostnaður á nýbyrjuðu ári hefði orðið yfir einn milljarður króna,“ segir Jón Þórisson, útgáfustjóri Torgs, um ákvörðunina.
Samkvæmt heimildum Mannlífs verður útgáfudögum Fréttablaðsins ekki fækkað. Þá eru engin áform um að fækka starfsfólki á ritstjórn eða í auglýsingasölu.