Forsíðumyndin er úr einstaklega fallegu innliti í Selvoginum hjá Dagnýju Berglindi og Davíð Rafni en þar er endurnýting og náttúrulegt í öndvegi. Ljós og birta er okkur hugleikin á þessum árstíma og í blaðinu er að finna skemmtilegar greinar um allt sem viðkemur ljósum og lýsingu og ýmsum praktískum atriðum sem vert er að hafa í huga.
Við sýnum sérlaga fallegan sumarbústað í vetrarbúningi hjá Katrínu Þóru og Baldri sem eiga verslunina baliku en þau gerðu upp gamlan bústað við Þingvallavatn.
Hús og híbýli skrapp til Vestmannaeyja á milli vetrarlægðanna og kíkti í heimsókn í afar stílhreint og smart nýuppgert hús hjá Söru Sjöfn og Bergi Páli. Einnig er að finna listrænt og öðruvísi hús í Fögrubrekku sem teiknað var fyrir Sigurð Sigurðsson listmálara og bera híbýlin þess glöggt merki en þar búa núna hjónin Sunna Ólafsdóttir og Þröstur Jóhannsson. Að auki er að finna afar fallega þakíbúð í Vesturbænum sem Bandaríkjamaðurinn Brian Patrick Flynn hannaði en hann er þekktur sjónvarpsmaður þar vestra á sviði innanhússhönnunar.
Póstkortið sem fylgir að þessu sinni er málað af listakonunni Maríu Þorleifsdóttur en það er án titils og er innblásið af nærumhverfi listakonunnar, Vífilfelli og Elliðavatni.
Blaðamaður Húsa og híbýla skellti sér á skemmtilega textílsýningu í Þýskalandi og farið er yfir það allra nýjasta í textílheiminum. Þetta og margt fleira prýðir síður blaðsins. Sjón er sögu ríkari.
Tryggðu þér áskrift að Hús og Híbýli í vefverslun