Það mátti heyra niðurbælt skelfingaróp frá göngufólkinu sem horfði á hundinn hrapa um 10 metra fram af hamri. Dýrið lenti á bakinu með dynk og kastaðist örlítið upp aftur eins og hálfvindlaus bolti.
Rakkinn Tinni hefur fylgt mér í flestum ferðum mínum um fjöll á Íslandi. Lauslegur útreikningur leiðir í ljós að hann hafi fylgt mér í 1.500 fjallgöngum. Tinni er af tegundinni American Cocker Spaniel sem þykir ekkert sérlega gerð fyrir fjallgöngur. Þessi tegund er frekar smávaxin og lágt undir kvið. Það er því fátt sem gefur til kynna að hann búi yfir getu á þessu sviði. En reynslan er önnur. Hann hefur farið allra sinna ferð um fjöll og að mestu án utanaðkomandi hjálpar. Undantekningin er lokakaflinn upp á Þverfellshorn Esjunnar. Þar er að finna áltröppu sem hjálpar göngumönnum að klöngrast upp hamarinn. Þar þarf að lyfta undir Tinna.
Um miðja nótt vaknaði ég við hvisshljóð
Við félagarnir höfum þvælst um allar koppagrundir. Í lífi hundsins er það gjarnan hápunktur vikunnar þegar við förum með Ferðafélagsfólki í helgargöngur. Þegar hann sér að ég tek til bakpokann lifnar hann við og sest við útidyrnar og bíður. Dagana sem ég fer ekki á fjöll notar hann til að hvílast og sofa. Svona hefur þetta verið síðan þessi átta ára rakki var fjögurra mánaða.
Erfiðasta ferð hundsins var þegar við gengum á Krák, það fjall sem var hvað lengst úr alfaraleið. Krákur er um 25 kílómetra frá Hveravöllum, útvörður Arnarvatnsheiðar í austri. Við félagarnir úr gönguklúbbnum Sófistum ákváðum að tjalda miðri leið að fjallinu. Veður var ekki með besta móti. Það var súld og kalt. Vætan smaug í gegnum hlífðarfötin. Tinni var orðinn hundblautur og í hvert skipti sem við stoppuðum leitaði hvolpurinn skjóls. Við stoppuðum stutt á hæsta tindi Kráks og héldum strax til baka og í tjaldbúðirnar. Ég gaf hundinum kjötbita, fékk mér kakóbolla, og skreið örþreyttur inn í tjaldið og hundurinn á eftir mér. Til að einangra okkur frá jörðu hafði ég álteppi í botninn. Ég steinsofnaði á augabragði. Um miðja nótt vaknaði ég við hvisshljóð og uppgötvaði mér til ógleði að örþreyttur hundurinn var að hafa þvaglát. Það varð handagangur í öskjunni þegar ég skutlaði mér út úr tjaldinu og hóf hreinsistarfið. Ég hafði ekki brjóst í mér til að skamma hvolpinn fyrir að pissa undir eftir að þá þrekraun sem hann gekk í gegnum á tuga kílómetra göngu.
Háski í Bakkaskarði
Tinni komst einu sinni í lífsháska. Þá vorum við að koma niður snarbratt Bakkaskarð í Skálavík á heimleið frá Galtarvita ásamt hópi fólks frá Ferðafélagi Íslands sem var að koma frá því að njóta þess að vera í vitanum í Keflavík í algjörri einangrun við ysta haf. Frá brún liggur gönguleiðin um snarbratta skriðu. Leiðin klofnar neðar þar sem göngufólk getur valið milli þess að fara hinum megin við klett sem klýfur skriðuna. Sumir göngumanna tóku þá ákvörðun að fara upp fyrir klettinn en aðrir fikruðu sig meðfram honum. Það var þá sem Tinni missti áttir. Hann tók á sprett og ætlaði að fylgja þeim sem tóku krókinn en hætti við og anaði beint af augum, fram af klettinum. Ég sá í sjónhendingu hvar hundurinn féll til jarðar. Mér sortnaði fyrir augum. Þetta gat varla orðið annað en bani hans. Ég sá hvernig Tinni skall á jörðinni á grastó neðan við klettinn og kastaðist aftur á loft. Mér virtist einsýnt að rakkinn væri allur og hraðaði mér til hans.
Í nokkrar sekúndur lá hundurinn hreyfingarlaus á bakinu með lappirnar upp í loftið. Áhorfendur voru sem stjarfir vegna örlaga dýrsins. Um það leyti sem ég kom að hundinum sá ég hreyfingu á honum, mér til ofboðslegs léttis. Svo velti hann sér með erfiðleikum á fæturna og stóð upp. Í smátíma var sem hann héldi ekki jafnvægi og hann skjögraði. Ég settist hjá honum og grandskoðaði hann. Hryggurinn var heill og hann stóð í fæturna. Við héldum áfram niður í Skálavík. Ég fylgdist grannt með dýrinu. Hundurinn bar ekki nein einkenni þess að fallið hefði skaðað hann. Tinni hafði komist upp með að hrapa 10 metra. Þetta var ekkert nema kraftaverk.