FH-ingar ætla sér stóra hluti í efstu deild karla á næsta tímabili; nýverið réð félagið Heimi Guðjónsson, einn allra sigursælasta þjálfara Íslandssögunnar, og félagið er hvergi nærri hætt í sinni uppbyggingu.
Nú hefur Kjartan Henry Finnbogason ákveðið að ganga til liðs við FH; hefur samið um að leika með þeim allavega út næsta keppnistímabil.
Kjartan er 36 ára gamall framherji og hefur hann aldrei leikið með öðru íslensku liði en KR, en kappinn er fjórði markahæsti leikmaðurinn í sögu KR í efstu deild; 49 mörk í 133 leikjum.
Kjartan hefur megnið af sínum ferli leikið erlendis – lengst af í Danaveldi með Esbjerg, Horsens og Vejle, líka með Ferencváros í Ungverjalandi, og ekki má gleyma Falkirk og Celtic í Skotlandi, Sandefjord í Noregi og Åtvidaberg í Svíþjóð.
Ferill Kjartans er glæsilegur; hann hefur skorað 135 mörk í 360 deildaleikjum á ferlinum og er markahæsti Íslendingurinn í dönsku úrvalsdeildinni með 27 mörk.
Mun koma hans til FH án efa styrkja liðið í komandi átökum.