Árið 1998 hófu vinirnir Carlos Martínez Aguirre og Jón Sigurður samstarf þar sem þeir bjuggu í Aþenu á Grikklandi. Íslendingurinn, sem þá kunni ekki að panta sér bjór á spænsku, hóf að semja lög við ljóð spænska skáldsins sem síðan fór til Madrídar í sumarfrí og nýtti tímann þar til þess að ota þessum lögum að spænska trúbadornum Aute. Ekkert kom útúr því og hætti Jón Sigurður að hugsa um það mál uns Aute féll frá árið 2020, en talið er að hann hafi látist af völdum kórónaveirunnar. Þá hefjast vangaveltur Íslendingsins varðandi það hvort trúbadorinn frægi hafi í raun fengið geisladiskinn, hvort hann hafi hlustað á hann, hvort honum hafi þá hugnast það sem þar var að heyra og hvort hann hafi einhverntíman haft hug á að gera eitthvað í málunum.
Í þessum þætti verður þessum tveimur sögum skeytt saman svo hlustendur kynnast Aute, sem var með frægustu tónlistarmönnum Spánar, en einnig merkilegur myndlistamaður, skáld, kvikmyndaleikstjóri og handritahöfundur. Og hinvegar sögunni af því hvernig tónlistin sem honum var send sumarið 1998 fann sinn farveg uppá fjalirnar í Salnum í Kópavogi vorið 2004 þar sem Gísli Magna söng lögin sem samin voru undir Akrapólishæðinni sex árum áður. Tónlistarfólkið þar var ekki af verri endanum en auk Gísla voru þar Pétur Valgarð, gítarleikari, Cheik Bangoura slagverksmaður, Aðalheiður Þorsteinsdóttir, píanóleikari, og Birgir Thorarensen sem lék á kontrabassa.
Þess má geta að Aute samdi lagið Aleluya no 1, Halelúja, sem síðar var flutt af Ed Ames en í enskum flutningi var það titilað Who Will Answer. Þar var stórt spurt og segir sagan að sá sem hafi tekið að sér að svara hafi verið enginn annar en Paul McCarteny í lagi sem allir þekkja. Kannski hafði það áhrif á Aute sem aldrei lét í sér heyra vegna tónlistar Íslendingsins við ljóð vinar síns Carlosar Martínez Aguirre.
Þættinum lýkur svo með frábærum flutningi þeirra Gísla og Aðalheiðar á laginu Si pronto ya no saná, eða Ef ég læt ekki líknast, en það angurværa lag samdi Jón Sigurður einmitt við ljóð Carlosar Martínez Aguirre í Aþenu árið 1998. Þess má geta að lesa má um þessi grísku ævintýri í bók Jóns Sigurðar Tvíflautan.