Búast má við áframhaldandi frosti um helgina, en útlit er fyrir snjómuggu austan til á landinu og íbúar á höfuðborgarsvæðinu mega eiga von á háum frosttölum, en Þetta segir Sigurður Þ. Ragnarsson – Siggi Stormur – í samtali við Fréttablaðið:
„Ég á von á því að tuttugu stiga frost múrinn falli í innsveitum norðanlands. Það kæmi mér ekki á óvart að kuldamet myndi falla á einstaka veðurathugunarstöðvum á þeim svæðum. Það verður næðingur í þessu, þó verður hann hægur í þessu mesta frosti fyrir norðan.“
Bætir þessu við:
„Þetta er harður vetur sem er að geisa hér á landi núna og menn eru orðnir hundleiðir á þessum jólasnjó. Það verður næðingur, napurt og kalt. Eigi menn áhugamál sem þeir geta stundað inni, þá er þetta tíminn fyrir það. Sumir elska þetta, til að mynda jeppakallarnir. Þeir geta notað tryllitækin í þessu veðri. En kuldalegt er það,“ segir Siggi og heldur áfram:
„Á höfuðborgarsvæðinu sýnist mér frostið fara mest í tíu til fjórtán stig á laugardaginn, sérstaklega að næturlagi þegar kaldast er. Það verður kalt alla helgina, það er ekkert launungarmál. Það verður áfram tveggja stafa frosttölur víðast hvar á landinu. Ég sé ekki betur en það. Við erum enn þá að tala um það að einhvers staðar á landinu alla helgina verði frostið yfir tuttugu stig.“
En Siggi stormur er líka með von í hjarta varðandi veðrið:
„Ég hef séð þetta skemmtilegra. Þetta er orðið gott í bili, því það er búið að vera talsvert frost síðan í desember og enn er að kólna. En það er vonarneisti í næstu viku. Þessar lægðir sem eru langt fyrir sunnan land, vonandi ná þær að klóra einhverju hlýrra lofti á landið.“