Lögregla handtók mann á bráðamóttöku í gærkvöldi eftir að hann hafði veist að starfsmanni og skemmt innanstokksmuni spítalans. Hann var ekki viðræðuhæfur og var því vistaður í fangaklefa lögreglu þar til hægt verður að ræða við hann.
Síðar um kvöldið kom upp eldur á veitingahúsi. Samkvæmt dagbók lögreglu má þakka skjótum viðbrögðum starfsmanna að litlar skemmdir urðu á staðnum. Í Hafnarfirði fóru tveir aðilar inn í verslun og veittust að starfsmanni. Því næst tóku þeir vörur og óku svo á brott. Lögregla brást fljótt við og stöðvaði bifreiðina á Reykjanesbraut. Þrír aðilar voru í bifreiðinni en tveir voru vistaðir í fangaklefa. Þá var lögregla kölluð út í verslunarmiðstöð en þar svaf maður ölvunarsvefni. Sá fær að sofa úr sér í fangaklefa.